Skoðun

Nefnifallsfárið

Þorsteinn Sæmundsson skrifar
Örn Bárður Jónsson, sóknarprestur og „áhugamaður um ástkæra, ylhýra málið“, ritar grein í Fréttablaðið 29. nóvember um það sem hann kallar nefnifallsfár. Beinir hann spjótum sínum sérstaklega að póstþjónustunni, sem á sínum tíma ákvað að nöfn póststöðva skyldi rita í nefnifalli.

Séra Örn er ekki sá fyrsti sem kvartar yfir þessu. Ágæt grein um þetta efni birtist í Morgunblaðinu 28. ágúst 1985 undir fyrirsögninni „Er Stafholt í Borgarnesi?“

Höfundurinn, dr. Björn S. Stefánsson, benti á þann möguleika að sleppa nafni póststöðvar þegar svo bæri undir, en rita einungis póstnúmerið, ef til vill með stafnum P á undan (t.d. P-101). Síðan eru liðnir tæpir þrír áratugir, og flestir virðast hafa sætt sig við nefnifallið í póstáritunum.

Sjálfur hef ég alla tíð verið ósáttur við þessa reglu. Ég nefni sem dæmi, að þegar ég þurfti að rita bréf til frænda míns sem býr að Núpstúni í Hrunamannahreppi, átti utanáskriftin að enda á 801 Selfoss. Burtséð frá nefnifallinu eru fullir 40 kílómetrar frá Núpstúni að Selfossi. Þetta skánaði að vísu þegar pósthús var opnað að Flúðum, sem er töluvert nær Núpstúni. Í stað 801 Selfoss kom þá 845 Flúðir, og gildir það enn þó að pósthúsið að Flúðum hafi reyndar verið lagt niður.

Þótt ég skilji röksemdir póstyfirvalda fyrir nefnifallinu hef ég verið sammála Birni Stefánssyni um það að nafni póststöðvar í utanáskrift sé ofaukið. Ég hef því haft þann háttinn á að rita einungis póstnúmerið, en með IS framan við, líkt og útlendingum er ætlað að gera. Utanáskriftin til frænda míns verður þá sem hér segir:

Hr. Brynjólfur Guðmundsson

Núpstúni

Hrunamannahreppi

Árnessýslu

IS-845

Íslandspóstur hlýtur að teljast fullfær um að ráða í eigin póstnúmer, og því ætti að vera óþarfi að tilgreina nafn póststöðvar (sem jafnvel er á vergangi, hafi pósthúsið verið lagt niður). Aðferð mín gæti gagnast öðrum sem þykir ankannalegt að rita póststöðvarnöfn í nefnifalli.




Skoðun

Skoðun

Tjáningar­frelsi

Laufey Brá Jónsdóttir,Sigríður Kristín Helgadóttir,Þorvaldur Víðisson skrifar

Sjá meira


×