Skoðun

Markviss undirbúningur að endurfjármögnun - Niðurgreiðsla lána og skuldbindinga um 1,9 milljarð á árinu

Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir skrifar
Fjárhagsáætlun fyrir árið 2014 var samþykkt í bæjarstjórn Hafnarfjarðar s.l. þriðjudag. Grunntónn áætlunarinnar er kraftur og uppbygging á sviði upplýsinga- og tæknimála, viðhaldi mannvirkja, framkvæmda í gatnagerð, fjölgun kennslustunda og þjónustu.

Meirihluti Samfylkingar og Vinstri grænna hefur lagt mikla áherslu á markvissan undirbúning að endurfjármögnun lánasafns sveitarfélagsins með stefnufestu í fjármálastjórn eins og á öðrum sviðum. Á kjörtímabilinu hefur verið unnið að endurskipulagningu á fjármálum og rekstri sveitarfélagsins. Slík vinna er lykillinn að hagkvæmri endurfjármögnun á lánasafni sveitarfélagsins til lengri tíma.

Engin hækkun á gjaldskrám fræðslu- og fjölskylduþjónustu

Hafnarfjarðarbær leggur sitt að mörkum til að draga úr verðbólgu og auka kaupmátt með því að halda öllum gjaldskrám tengdum fræðslu- og fjölskylduþjónustu óbreyttum. Jafnframt er tekin upp sú nýjung að frá 1. janúar 2014 ná systkinaafslættir frá dagforeldri til frístundaheimilis.

Álagningarhlutfall fasteignaskatts af íbúðarhúsnæði lækkar úr 0,30% niður í 0,28% eða um 6,7%. Þar með hefur álagningarhlutfall fasteignaskatts lækkað um 12,5% á tveimur árum.

Fræðslumál eru fyrirferðarmikil í þessari áætlun eins og undanfarin ár. Skiptistundum í grunnskólum verður fjölgað enn frekar frá og með næsta skólaári auk þess sem sumarlokanir leikskóla styttast úr fimm vikum í fjórar. Sérstök áhersla verður á áframhaldandi uppbyggingu í upplýsingatækni í leik- og grunnskólum bæjarins. Aukin sérkennsla í leikskólum er mikið áhyggjuefni en þeirri þörf er mætt í þessari fjárhagsáætlun.

Rekstrarniðurstaða A og B hluta er jákvæð um 613 milljónir króna og 266 milljónir í A hluta. Áætlað veltufé frá rekstri A hluta er um 1,7 milljarðar króna og samantekið fyrir A og B hluta 2,5 milljarðar króna sem er rúmlega 14% af heildartekjum. Á árinu er gert ráð fyrir því að greiða niður lán og skuldbindingar að fjárhæð 1,9 milljarðar króna.

Í áætlanagerðinni í ár var ákveðið að stíga fyrstu skrefin í átt að kynjaðri áætlanagerð. Hvert svið hefur valið að lágmarki eitt tilraunaverkefni þar sem aðferðafræði kynjaðrar fjárhags- og starfsáætlunargerðar verður beitt.

Stefnufesta í stjórn bæjarins á kjörtímabilinu

Mikil uppbygging er framundan hjá sveitarfélaginu. Forhönnun Ásvallabrautar er að ljúka og við tekur nánari útfærsla veghönnunar og verkframkvæmda. Samið hefur verið um byggingu á þremur búsetukjörnum fyrir fatlað fólk. Áfram verður unnið að undirbúningi byggingar hjúkrunarheimilis í Skarðshlíð og byggingar síðari áfanga Áslandsskóla.

Stjórnun Hafnarfjarðarbæjar á þessu kjörtímabili hefur einkennst af stefnufestu, íbúalýðræði, bættu aðgengi að gögnum, valdeflingu íbúa og aðhaldi í rekstri sem skilar fjárhagsáætlun með bættri afkomu, aukinni niðurgreiðslu skulda og lægri álögum á íbúa.




Skoðun

Sjá meira


×