Skoðun

Getur íþróttavöllurinn verið vettvangur jafnræðis?

Eva Dögg Guðmundsdóttir skrifar
Þegar líða fer að sveitarstjórnarkosningum langar undirritaða að benda á svið sem nýta mætti betur til uppbyggingar í velferðarmálum í samfélaginu.

Ég held að flestir geti verið sammála mér í því að eitt helsta velferðarmálefni og áskorun í okkar samfélagi er að tryggja háa atvinnuþátttöku borgaranna.

Samkvæmt nýlegri skýrslu Fjölmenningarseturs virðist þó vera hópur sem á erfiðara uppdráttar á atvinnumarkaðnum en aðrir. Það eru innflytjendur og afkomendur þeirra, sem í ríkari mæli en íslenskir ríkisborgarar hafa misst atvinnu sína eftir efnahagshrunið. Í skýrslunni er ekki greint svo mikið í tölurnar, enda er þetta tölfræðiskýrsla og því ekki greining á vandanum eða tillögur um úrbætur.

Ég ætla því að fá að vitna í skýrslu frá ráðuneyti félags-, barna- og samþættingarmála (Social-, børne- og integrationsministeriet) í Danmörku sem hefur framkvæmt greiningu á sama vanda.

Það þarf vart að taka fram að danskt samfélag er með mun lengri reynslu af fjölmenningarsamfélagi en hið íslenska. Þrátt fyrir að samsetning og hlutfall þjóðerna sé ekki hið sama og á Íslandi má draga hliðstæður af greiningunni. Þar kemur fram að stór áhrifaþáttur er almennt lægra menntunarstig hjá innflytjendum og afkomendum þeirra sem og vöntun á sterku tengslaneti við Dani.

Ég ætla að dvelja aðeins við tengslanetagreininguna, því ég hef ennþá ekki hitt Íslending sem væri til í að hafna þeirri staðhæfingu að tengslanet skipti miklu máli í atvinnuleit á Íslandi.

Sú þróun hefur átt sér stað á Íslandi að íslenskir ríkisborgarar af erlendum uppruna og erlendir ríkisborgarar búa þéttbýlt á fáum stöðum í borginni. 30% íbúa á Kjalarnesi tilheyra þessum hóp og einnig 24% íbúa í Efra-Breiðholti.

Þessi þróun þarf ekki að vera neikvæð, því oft getur skapast mikill samhugur hjá fólki sem er í svipuðum aðstæðum, það er að segja aðfluttir sem hjálpast að því þeir eru án stórfjölskyldunnar og vina frá heimalandinu. Hins vegar skapast vandamál ef meginþorri tengslanetsins samanstendur af fólki sem ekki hefur sterka tengingu inn á atvinnumarkaðinn í landinu sem það býr í. Ef einstaklingur missir atvinnu sína aukast líkurnar á að viðkomandi nái ekki fótfestu aftur á atvinnumarkaðnum og festist í langtímaatvinnuleysi.

Hvernig má styrkja tengslanet?

Rannsóknir á sviði íþrótta- og félagsvísinda hafa bent til að íþróttir hafa ákveðna kosti sem samskiptavettvangur milli fólks af ólíkum þjóðernum í fjölmenningarsamfélagi. Undanfarinn áratug hefur danskt samfélag í ríkari mæli unnið að langtímamarkmiðum í fjölmenningarmálum. Þar er litið á íþróttaþátttöku barna sem vettvang til uppbyggingar einstaklinganna, betri lýðheilsu og umfram allt aukinna samskipta og jafnræðis í samskiptum barna af ólíkum menningaruppruna.

Ég ætla að fara örstutt yfir þá efnislegu kosti sem íþróttir hafa sem vettvangur samskipta, en bendi jafnframt á að ekki sé allt jákvætt við íþróttaþátttöku. Íþróttamenning getur haft ókosti eins og t.d. „ljótan tón“ í samskiptum einstaklinganna í hita leiksins.

Íþróttaleikvangurinn getur verið lýðræðislegur vettvangur; allir geta tekið þátt í íþróttinni frá fyrsta degi í nýju landi, því það eru engar formlegar hindranir fyrir þátttöku.

Íþróttir hafa einnig verið kallaðar alþjóðlegt tungumál, eða jafnvel taldar „þjóðernisblindar“, því líkamstjáning og líkamleg geta í íþróttinni verður aðalsamskiptamiðillinn. Hugurinn tæmist við líkamlega áreynslu. Þetta getur því verið vettvangur þar sem húðlitur, uppruni, trúarbrögð, hefðir og tungumálaerfiðleikar eru í bakgrunni og skipta ekki máli í samskiptum.

Íþróttaþátttaka getur stækkað tengslanet. Þar hittast einstaklingar sem e.t.v. myndu ekki hafa samskiptagrundvöll í samfélaginu og byrja að hafa samskipti. Hópíþróttir krefjast samvinnu. Þar að auki geta íþróttasigrar á velli haft jákvæð áhrif á sjálfstraust einstaklinganna og liðsheildina, því liðið getur orðið eins og önnur fjölskylda. Ég vil nýta tækifærið og hvetja stjórnmálaflokkana til að setja æskulýðsmálefnin á oddinn og styrkja hag barna, svo að kostnaður komi ekki í veg fyrir þátttöku í æskulýðsstarfi. Langtímaávinningurinn gæti orðið stór fyrir samfélag okkar.




Skoðun

Sjá meira


×