Skoðun

Evrópuumræða á villigötum?

Haukur Eggertsson skrifar
Nú í október fögnuðu Íslendingar 5 ára afmæli gjaldeyrishaftanna. Þegar höftin voru sett á var talað um að þau yrðu til allt að 2 ára. Ég var, þá, einn af þeim bjartsýnu og taldi að innganga í Evrópusambandið kynni svo sem að vera nothæf framtíðarlausn fyrir Ísland, en slík vegferð sem endaði með upptöku evrunnar tæki jú miklu lengri tíma en árin 2. Síðan þá hefur bjartsýni mín dofnað.

Ekki eru allir á eitt sáttir hvað höftin kosta okkur, enda kostnaðurinn missýnilegur og bitnar misjafnlega á stéttum og atvinnugreinum. Heyrzt hafa tölur um tugi ef ekki á annað hundrað milljarða króna á ári, en ekki verður lagt mat á slíkar tölur hér. En eftir þessi 5 ár hillir enn ekki undir neina trúverðuga lausn um afnám haftanna, en upptaka erlends gjaldeyris án bakstuðnings frá viðkomandi ríki er líkleg til að mistakast. Undirritaður veit alla vega hvað hann ætlar að gera við sinn sparnað daginn sem innistæðum hans verður breytt í erlenda mynt.

Nú mega menn hafa ýmsar skoðanir á Evrópusambandinu, og í raun fátt sem er til þess gert að vekja óstjórnlega hrifningu þegar litið er í þá átt. Áframhaldandi hjakk með haftakrónuna vekur að sama skapi litla hrifningu, og ég á þá ósk að afkomendur mínir muni lifa í þjóðfélagi frjálsra viðskipta.

Eina sýnilega lausnin, sem er líkleg til þess að geta komið okkur út úr höftunum, a.m.k. hjá öðrum en þeim sem trúa á framsóknarjólasveininn, er upptaka evrunnar. Umræðan um Evrópusambandið ætti því ekki að snúast um hvort við eigum að ganga í sambandið eða ekki, heldur hvort við eigum að vera þar, það er stundinni lengur en upptaka evrunnar tekur. Íslendingar ættu því að skoða það alvarlega að verða fyrsta landið sem segir sig úr Evrópusambandinu, en það er ákvörðun sem bezt verður tekin þegar við höfum litast um innandyra.




Skoðun

Skoðun

Tjáningar­frelsi

Laufey Brá Jónsdóttir,Sigríður Kristín Helgadóttir,Þorvaldur Víðisson skrifar

Sjá meira


×