Skoðun

Hvers eiga dýrin að gjalda?

Guðný Nielsen skrifar
Ekkert lát virðist á vinsældum loðfelda á Íslandi og er það ekki síst áberandi nú í aðdraganda jólanna þegar kuldinn sækir að landsmönnum. Búið er að fylla á lagera verslana og mikið úrval tegunda er að finna í hillum. Loðfeldur er vinsæl jólagjöf í ár líkt og undanfarið. Flík sem áður var munaðarvara, kostaði handlegg og var oft aðeins gefin á stórafmælum er nú seld í flestum tískuvöruverslunum á verði sem neytendur ráða auðveldlega við. Hvernig má það vera?

Kínverjar eru stærstu framleiðendur loðfeldar á heimsvísu. Kínversk bú eru óteljandi og þeim fer fjölgandi. Sögum ber ekki saman um það hvort lög um dýravelferð séu yfirhöfuð til staðar í Kína. Aðferðir, sem beitt er við loðdýraframleiðslu þar, eru vægast sagt hræðilegar og næsta víst að íslensku búi yrði samstundis lokað, gerðist íslenskur framleiðandi uppvís að því að beita sömu aðferðum. Framleiðslan í Kína miðar að því einu að hámarka hagnað. Búin stækka og framleiðslukostnaðurinn lækkar. Keppst er við að koma sem flestum dýrum á hvern fermetra, sem minnstu er kostað til við fóður, vatn, hita og birtu; rétt þannig að dýrin haldist á lífi nógu lengi til þess að hægt sé að koma loðfeldinum í verð. Kostnaður við aflífun er mismikill og aðferðirnar margar eins og ógrynni myndbanda á veraldarvefnum sýna. Dýrin eru ýmist kæfð með útblæstri frá mótor, gefið raflost í endaþarm, barin til dauða með prikum, stigið á háls þeim og stappað og þau jafnvel fláð lifandi. Þessar myndbandsklippur geta eflaust fáir horft á til enda.

Loðfeldur í íslenskum verslunum er iðulega merktur íslensk hönnun, en hvergi kemur fram upprunaland feldarins. Íslenskir loðdýrabændur selja allan sinn loðfeld úr landi og þar sem Kínverjar framleiða mest allra af loðfeldi er ekki erfitt að gera sér í hugarlund hvaðan ódýri loðfeldurinn, sem við sjáum hér í verslunum, kemur.

Samstillt átak tískuhúsa og framleiðenda hefur byrgt okkur sýn á það hvers dýrin raunverulega gjalda til þess að við getum klæðst þessari tískuvöru. Standa íslenskir neytendur kannski í þeirri trú að lög og reglugerðir komi einhvern veginn í veg fyrir að vörur framleiddar á þennan hátt nái inn á íslenskan markað? Á meðan við gerum ekki lágmarkskröfur til framleiðenda um að velferð dýranna sé tryggð mun þessi tískuvara halda sessi sínum á íslenska markaðnum. Hvar drögum við línuna? Hvers eiga dýrin að gjalda? Munum að við kjósum með veskinu.




Skoðun

Skoðun

Tjáningar­frelsi

Laufey Brá Jónsdóttir,Sigríður Kristín Helgadóttir,Þorvaldur Víðisson skrifar

Sjá meira


×