Skoðun

Hefur kreppan áhrif á námsárangur barna?

Jónína Gunnarsdóttir skrifar
Niðurstöður voru nýlega kynntar úr Pisa-könnuninni sem gerð er á þriggja ára fresti og varð útkoma íslenskra barna menntamálaráðherra, Illuga Gunnarssyni, mikið áfall. Illugi vill í kjölfarið grandskoða menntakerfið og er það vel, en fleira þarf að skoða. Könnunin sýnir að íslensk börn hafa frá árinu 2000 verið að fara niður á við í les- og stærðfræðiskilningi.

Aðeins hægði á þessu árið 2006 til 2009 en eftir það má sjá áberandi hnignum og við mælingu 2012 eru Ísland og Svíþjóð ásamt Mexíkó og Chile lökust af þeim 32 OECD-löndum sem mæld voru. Þegar útkoman var skoðuð eftir landshlutum komu Suðurnesin langverst út en þar var útkoman áberandi slökust.

Hvað veldur því að Suðurnesin koma langverst út úr þessari mælingu þegar bornir eru saman landshlutar? Það á sér eflaust ýmsar skýringar en getur verið að langvarandi atvinnuleysi foreldra og fátækt hafi þar einhver áhrif? Rannsóknir sýna að börn sem alast upp við fátækt eiga erfiðara uppdráttar og kemur það niður á andlegri heilsu þeirra. Barnaverndartilkynningum í Reykjanesbæ og Sandgerði hefur farið fjölgandi undanfarin ár, sem gefur sterkar vísbendingar um að ástandið sé farið að bitna á börnunum.

Í fréttatíma Bylgjunnar þann 3. desember var rætt við bæjarstjóra Reykjanesbæjar sem gat ekki leynt undrun sinni og sagðist vera mjög hissa á þessari niðurstöðu. Tveimur dögum áður hafði þó á forsíðu Fréttablaðsins verið vísað í skýrslu Barnaverndarstofu þar sem fram kom að á fyrstu 9 mánuðum þessa árs hafi barnaverndartilkynningar í Reykjanesbæ verið 50% fleiri en árið 2012.

Hefur þeim farið fjölgandi jafnt og þétt eftir hrun og eru tilkynningar til Barnaverndar langflestar þaðan ef miðað er við fólksfjölda, en í Reykjanesbæ búa 14.200 manns og er heildarfjöldi barnaverndartilkynninga 8% af heildarfjölda tilkynninga á landsvísu. Þegar hlutfall barnaverndarmála á hver þúsund börn er notað sem mælistika var landsmeðaltalið 54,6 börn en í Reykjanesbæ var hlutfallið 80 börn.

Áhrif fátæktar á börn

Við megum ekki halda áfram að stinga höfðinu í sandinn og horfa fram hjá þeim vanda sem fátækt hefur á börnin. Það búa mörg börn við það að þurfa oft að hrekjast frá einum stað til annars vegna húsnæðisleysis foreldra og búa jafnvel í húsnæði sem ekki getur talist til mannabústaða. Það eru einnig til börn sem búa við það þegar líða fer á mánuðinn að ekki er til matarbiti á heimilinu því peningarnir duga ekki til. Jafnhliða fjölgun barnaverndartilkynninga hefur fjölgun bráðamála og tilvísana á Barna- og unglingageðdeild aukist ár frá ári og eru þar langir biðlistar.

Er líklegt að börn sem upplifa tíða flutninga, langvarandi atvinnuleysi foreldra og það vonleysi og depurð sem það óhjákvæmilega hefur í för með sér fái þá uppörvun, umönnun og hvatningu sem þau þurfa til að standa sig vel í skóla? Eða getur verið að hluta af vanda barnanna megi rekja til þessara þátta?

Að þessu sögðu tel ég að fleiri þættir en það sem gerist innan veggja skólans hafi áhrif á námsárangur barna. Þess vegna þarf samfélagið allt að hlúa betur að börnunum, sérstaklega þeim sem minna mega sín og eiga um sárt að binda.




Skoðun

Sjá meira


×