Skoðun

Opið bréf til Illuga

O. Lilja Birgisdóttir skrifar
Kæri Illugi.

Takk fyrir fundinn í Flensborgarskóla þriðjudaginn 3. desember en ég sat með þér á fundi varðandi málefni framhaldsskólanna í Hafnarfirði, stöðu þeirra í dag. Einhvern veginn fjallaði fundurinn þó meira um niðurstöður PISA-könnunarinnar og hvernig efla þurfi grunnskóla landsins. Einnig spurðir þú sjálfan þig og aðra fundarmenn hvernig stæði á því að íslenskir nemar þurfi 14 ár í námsundirbúning fyrir háskólanám á meðan nágrannalönd okkar þurfi bara 12-13 ár. Þú hefur nokkuð skýra framtíðarsýn hvað þetta varðar, þ.e. styttri skólagöngu og erum við nú þegar á þeirri leið.

Framtíðarsýn ungmenna

Ég spyr hins vegar hvað um framtíðarsýn ungmenna dagsins í dag. Ertu tilbúinn að fórna þeim fyrir hallalausan ríkissjóð? Þar sem þú ert mjög upptekinn af niðurstöðum PISA þá er eðlilegt að horfa til Finna en þeir hafa staðið sig mjög vel á þessum vettvangi síðustu ár. Það sem hefur verið að virka í þeirra menntakerfi er m.a. áhersla á fjölbreytni í skólastarfinu, góð tenging við vinnumarkaðinn, kennarastétt sem er stolt og virðing er borin fyrir.

Finnst þér þú vera að skapa menntakerfinu þetta umhverfi með fjármagni sem þú segir sjálfur að dugi ekki fyrir rekstri framhaldsskólanna? Það er flott að þú viljir styðja og efla grunnskólana með það að markmiði að koma betur út úr PISA-könnunum framtíðarinnar en hvað ætlarðu að gera núna fyrir ungmennin sem eru að byrja sitt framhaldsskólanám? Ætlarðu að fórna þessum 30% sem ekki geta lesið sér til gagns? Hversu langt ertu tilbúinn að ganga fyrir hallalausan ríkissjóð?

Lítið val

Sveltir framhaldsskólar hafa lítið val, þeir neyðast til að skera burt dýru fögin sem eru oftast verklegu fögin, takmarka fjölbreytni og þar með gerast lögbrjótar. „Hlutverk framhaldsskóla er að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og virkri þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi með því að bjóða hverjum nemanda nám við hæfi. Framhaldsskólar búa nemendur undir þátttöku í atvinnulífinu og frekara nám.“ (Lög um framhaldsskóla I. kafli, 2. gr.)

Ég skora á þig, Illugi, að skoða hug þinn varðandi núverandi aðgerðir en haltu endilega í skýra framtíðarsýn um eflingu skólakerfisins og kennarastéttarinnar. Ég hef trú á því að þú viljir styrkja og efla ungmenni dagsins og virkja þeirra sterku hliðar. Fórnum ekki nútímanum fyrir framtíðina.




Skoðun

Sjá meira


×