Skoðun

Námslán eru hluti af verðtryggðum skuldum heimila

Guðlaug Kristjánsdóttir og Georg Brynjarsson skrifar
BHM – heildarsamtök háskólamenntaðra á vinnumarkaði hafa að undanförnu ítrekað þá staðreynd að verðtryggðar skuldbindingar heimila á Íslandi skiptast í húsnæðislán annars vegar og námslán hins vegar. Tilefnið er kynning á aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar um höfuðstólslækkun húsnæðislána en rökstuðningur þeirrar aðgerðar er sá að forsendubrestur hafi orðið vegna verðtryggðra lána. Vandséð er að sá rökstuðningur nái yfir eina tegund verðtryggðra lána heimila en ekki aðra.

Mikilvægt er að því sé haldið til haga að rökstuðningur aðgerða ríkisstjórnarinnar hefur ekkert með vaxtastig húsnæðislána að gera, enda bera þau ólíka vexti. Verðtryggð húsnæðislán sem ekki hafa verið leiðrétt með fyrri aðgerðum skulu lækkuð enda nái forsendubresturinn til þeirra allra.

Ummæli menntamálaráðherra um að námslán séu þegar niðurgreidd af hinu opinbera vekja athygli, enda hefur málflutningur fulltrúa ríkisstjórnarinnar gengið út á að beinar niðurfellingar húsnæðislána séu ekki á kostnað ríkissjóðs. Því er óeðlilegt að blanda þessu tvennu saman, forsendubresturinn er þessu óviðkomandi.

Misræmi

Eftir stendur sú staðreynd að nú hafa komið til úrræði til leiðréttingar á höfuðstól annarrar tegundar verðtryggðra skulda heimilanna en ekki hinnar. Fjöldi greiðenda námslána býr ekki í eigin húsnæði og því skapar það misræmi að handvelja aðeins aðra tegund lána þegar kemur að opinberum aðgerðum. Í þessu felst misræmi í grundvallaratriðum sem stangast á við málflutning fulltrúa ríkisstjórnarinnar um forsendubrest verðtryggðra lána.

Þá hefur komið fram að menntamálaráðherra hafi í sumar sagt að skoða ætti námslán eftir að tillögur um skuldaleiðréttingu húsnæðislána lægju fyrir. Þá vinnu er eðlilegt að byrja með því að tryggja samræmi í opinberum aðgerðum, hvort sem er að leiðrétta verðtryggðar skuldbindingar fyrir verðbólguskoti hrunáranna eða að tryggja að hægt sé að nýta skattfrelsi séreignarsparnaðar til niðurgreiðslu námslána rétt eins og húsnæðislána.




Skoðun

Sjá meira


×