Skoðun

Þrjár krónur af þúsundkalli

Engilbert Guðmundsson skrifar
Nokkur umræða hefur orðið um framlög íslenska ríkisins til þróunarsamvinnu. Til að umræðan geti orðið málefnaleg er nauðsynlegt að hún byggist á staðreyndum og þekkingu. Hér eru tínd til nokkur atriði sem mér þykir mikilvægt að höfð séu til hliðsjónar í slíkri umræðu.

Ísland hefur undirgengist alþjóðlegar skuldbindingar um þróunarsamvinnu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna um að veita 0,7% af þjóðartekjum í aðstoð við fátækar þjóðir. Þetta markmið hefur ítrekað verið staðfest af Alþingi, nú síðast í Þróunarsamvinnuáætlun sem samþykkt var fyrr á árinu, og á að nást árið 2019. Íslendingar hafa þannig lofað að gefa 7 krónur af hverjum þúsund krónum sem þjóðin hefur í tekjur í það að hjálpa fátækum þjóðum.

Nokkrar þjóðir sem við berum okkur saman við hafa fyrir löngu náð 0,7% markmiðinu. Noregur, Svíþjóð og Danmörk eru vel yfir markinu og Finnland er ekki langt frá. Hollendingar gefa einnig 0,7% af þjóðartekjum og Bretar ná því á þessu fjárlagaári. Og svo má ekki gleyma smáríkinu Lúxemborg, en þar fer 1% af þjóðartekjum í þróunaraðstoð. Þetta litla ríki veitir nær 70 milljarða króna á ári í þróunarsamvinnu.

Vantar mikið

Mikið vantar upp á að Ísland standi við skuldbindingar sínar. Í ár nema íslensk framlög 0,26% af þjóðartekjum, þ.e. minna en þremur krónum af hverjum þúsund, og samkvæmt fjárlagafrumvarpi verður hlutfallið hið sama árið 2014, en átti samkvæmt Þróunarsamvinnuáætlun að fara upp í 0,28% á næsta ári.

En hversu stór hluti af fjárlögum ríkisins fer til þróunarsamvinnu? Samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir 2014 verða framlög til þróunarmála í gegnum utanríkisráðuneytið 4,1 milljarður (plús grunnframlög til alþjóðastofnana). Skatttekjur ríkisins eru áætlaðar 534 milljarðar. Það fara þannig um það bil 8 krónur af hverjum 1.000 krónum, sem ríkið hefur í skatttekjur, til þróunarmála, minna en 1%.

Fyrir hrunið 2008 voru framlög Íslands hærri og voru hæst komin upp í nær 0,4% af þjóðartekjum. Eftir hrun var meira skorið niður í þessum málaflokki en nokkrum öðrum og árið 2012 var hlutfallið komið niður í 0,2%. Oft heyrist að við höfum ekki efni á að veita þróunaraðstoð því hrunið hafi farið svo illa með efnahag landsins. Í því sambandi má nefna að fleiri þjóðir en Íslendingar hafa lent í efnahagslegum hremmingum án þess að bregðast við með sama hætti að því er varðar aðstoð við fátækar þjóðir.

Írar fóru líklega verr út úr hruninu en Íslendingar, en brugðust við með mun minni samdrætti. Írar skáru þróunaraðstoð niður úr 0,57% af þjóðartekjum í 0,51%. Íslendingar skáru aðstoðina úr 0,4% í 0,2%.

Finnar lentu í enn meiri hremmingum en við í efnahagskreppunni upp úr 1990, með hruni Sovétríkjanna. Atvinnuleysi fór í nær 20% og í 50% í sumum byggðum. Þeir skáru niður þróunaraðstoð, en fóru þó aldrei undir 0,3% og hafa aukið framlög síðan og nálgast 0,7% markið.

Viðhorf þjóðarinnar

Möguleikar Alþingis og ríkisstjórnar til að standa við skuldbindingar um framlög til þróunarsamvinnu eru háðir stuðningi þjóðarinnar. Í sumar var gerð vönduð skoðanakönnun þar sem einmitt var spurt um viðhorf þjóðarinnar. Í ljós kom að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar er mjög hlynntur þróunarsamvinnu og íslenskum framlögum til hennar. Um það bil 80% telja hana skila árangri, og jafn hátt hlutfall vill að Íslendingar sinni þróunarsamvinnu. Þá var áhugavert að sjá að nær 90% aðspurðra vildu ýmist auka þróunarsamvinnu eða halda henni óbreyttri. Lítill minnihluti vildi draga hana saman.

Árangurinn

Það er eðlileg krafa að fjármunir til þróunarsamvinnu komi að gagni og skili árangri. Þróunarsamvinnustofnun Íslands telur sig geta sýnt fram á að fjárframlögin hafi skilað sér í menntun barna, ekki síst stúlkna. Þau hafa skilað sér í lestrarkunnáttu fullorðinna. Þau hafa skilað sér í minni mæðra- og barnadauða. Þau hafa skilað sér í betra heilbrigði vegna færri sjúkdóma af völdum lélegs drykkjarvatns. Þá hafa þau skilað sér í meiri tekjum og betri afkomu fiskimannasamfélaga. Og þau munu skila sér í auknum aðgangi að rafmagni í fátækum löndum.




Skoðun

Sjá meira


×