Skoðun

"Landskemmarar“

Ólafur Hallgrímsson skrifar
Sigurður Arnalds verkfræðingur, einn af aðalhugmyndafræðingum Kárahnjúkavirkjunar, ritar óvenjulega grein í Mbl. 11. okt. sl.

Kveðst hafa verið á heilsubótargöngu í Laugarásnum á liðnu sumri, mætir þar konu einni, er snýr sér við og kallar á eftir honum orðið „landskemmari“.

Að vonum er Sigurður óhress yfir nafngift þessari, sem hann telur í hæsta máta ómaklega. Í greininni fer hann mörgum og fjálglegum orðum um gildi og nauðsyn stóriðju á Íslandi og Kárahnjúkavirkjunar sérstaklega, sem hann segir, að hafi verið ráðist í að loknum „vönduðum undirbúningi og á lagalegum grunni eins og í öðrum lýðræðisríkjum“.

Við þessa fullyrðingu um undirbúninginn er rétt að staldra örlítið við. Eins og stóriðjupostulum er títt, verður Sigurði tíðrætt um, hve vistvæn innlend vatnsorka sé, sem að vissu leyti er rétt samanborið við erlenda orkugjafa, kol, olíu og gas. Vatnsorkan sem slík mengar ekki, en risavatnsorkuver eins og Kárahnjúkavirkjun getur líklega seint talist vistvæn vegna allra þeirra umhverfisspjalla sem hún veldur. Og álver eru ekki vistvæn.

Sigurður forðast að sjálfsögðu eins og heitan eldinn að minnast á það. Væntanlega mun þó Sigurði Arnalds eins og öllum landsmönnum kunnugt um þær breytingar sem orðnar eru á lífríki Lagarfljóts og umhverfis þess allt til sjávar, eftir að frárennslisvatn virkjunarinnar tók að renna út í Fljótið.



Nú benda rannsóknir til, að lífríkið í Lagarfljóti sé að deyja út smátt og smátt vegna versnandi lífsskilyrða í vatninu, vaxandi svifaurs, minna gegnsæis og kólnunar, sem allt eru afleiðingar virkjunarinnar. Þá er ekki tekin með hækkun vatnsborðs Fljótsins, sem farin er að valda landbroti á bökkum þess allt til sjávar, svo og önnur umhverfisspjöll. Með öðrum orðum, Lagarfljót, eitt mesta og fegursta stöðuvatn landsins, er að breytast í lífvana forarpoll.

Einhver myndi e.t.v. orða það svo, að það sé hreint ekki svo lítið mál. En við þessu var búið að vara sem afleiðingu af vatnaflutningunum af okkar færustu vísindamönnum. Á þá var að sjálfsögðu ekki hlustað. Grunnfærir pólitíkusar réðu ferðinni. Þar voru ráðherrar Framsóknarflokksins í þáverandi ríkisstjórn í lykilhlutverki, ásamt Landsvirkjun, þau Halldór, Valgerður og Sif, þótt þyngst sé vissulega ábyrgð Sifjar sem umhverfisráðherra, sem heimilaði Kárahnjúkavirkjun (2001), þótt Skipulagsstofnun hefði hafnað henni vegna mikilla, óafturkræfra umhverfisáhrifa.

Ber enginn ábyrgð á neinu?

Allt þetta veit Sigurður Arnalds mætavel. Hann veit líka, að umhverfismat Kárahnjúkavirkjunar var unnið undir ákveðinni tímapressu, samt telur hann þetta til marks um vandaðan undirbúning. Sannleikurinn er sá, að búið var að panta niðurstöðuna fyrirfram. Það átti að virkja, hvað sem það kostaði umhverfið.

Nú á innan við áratug eru afleiðingar Kárahnjúkavirkjunar, sem búið var að segja fyrir um, allar að koma í ljós. Það er styttri tími en vænta hefði mátt. Nú vill þetta fólk hafa sem fæst orð um virkjunina, segist vera hætt í pólitík o.s.frv. Það er skiljanlegt, en spurningin er, hvort það getur skotið sér undan ábyrgð á verkum sínum. Það er sennilega spurning, sem ýmsir velta fyrir sér. Eða ber enginn ábyrgð á neinu á Íslandi?

Sigurði Arnalds er í mun að sýna fram á nauðsyn Kárahnjúkavirkjunar og álvers á Reyðarfirði fyrir atvinnulíf eystra og gjaldeyrisöflun landsmanna. Engan skyldi undra, þótt dýrasta framkvæmd Íslandssögunnar, sem kostaði a.m.k. eina litla hundrað milljarða, skili einhverju jákvæðu fyrir atvinnulífið á Austurlandi og þjóðarbúið, fyrr mætti nú vera.

Staðreynd er þó engu að síður, að það er mun minna en áætlanir gerðu ráð fyrir. Það hefur engin „varanleg fjölgun“ íbúa orðið á Austurlandi með tilkomu framkvæmdanna, ekki einu sinni í Fjarðabyggð og nánast engin á Fljótsdalshéraði. Sveitarfélögin á Austurlandi eru skuldum vafin og síst betur í stakk búin að sinna lögbundnum verkefnum sínum en var fyrir virkjun.

Sigurður Arnalds er mikill áróðursmaður fyrir stóriðju, en hann kýs að sýna aðeins aðra hliðina á stóriðjunni, segja aðeins hálfan sannleikann og varla það. Hann sleppir hinni hliðinni, þeirri sem snýr að umhverfinu, því miður. En umhverfisspjöllin í Lagarfljóti hverfa ekki, þótt einhverjir kunni að óska þess, þau munu minna á sig um ókomna tíð sem vitnisburður um skammsýni og græðgi þeirra sem með réttu mega kallast „landskemmarar“. Grunur minn er sá að fleiri en frúin á Laugarásnum séu sama sinnis.




Skoðun

Sjá meira


×