Skoðun

Leyfið mér að borga skatta

Einar Ólafsson skrifar
Móðir mín er 92 ára gömul. Undanfarin ár hefur hún búið í þjónustuíbúð í Reykjavík en sl. vor þurfti hún að leggjast inn á sjúkrahús og þegar leið á sumarið var ljóst að hún þyrfti komast á hjúkrunarheimili.

Þangað er hún nú flutt og fer vel um hana þar. Þetta ferli getur tekið nokkurn tíma og þess vegna var hún meira og minna á sjúkrahúsi í allt sumar. Því miður þurfti hún að þvælast milli deilda þar sem ekki var pláss á öldrunardeild, en alls staðar fékk hún góða umönnun.

Hún þurfti ekki að greiða fyrir þessar gistinætur á sjúkrahúsinu. Hún var svo heppin að þegar hún var að komast á fullorðinsár var farið að mótast hér velferðarsamfélag. Til þess borguðu þau skatta af tekjum sínum hún og faðir minn, og þess nutu þau reyndar þegar hann missti heilsuna á besta aldri. Þau höfðu aldrei efnast verulega, komust bærilega af, en heilsuleysi föður míns hefði eflaust orðið þeim fjárhagslegur baggi ef hér hefði ekki verið búið að byggja upp þó það velferðarsamfélag sem þá var komið.

Ég minnist þess hversu föður mínum var það mikið í mun að við börnin hans gætum sótt okkur framhaldsmenntun eftir grunnskóla, sjálfur hafði hann ekki á kost á því nema að litlu leyti. Eftir menntaskóla nutum við bræðurnir hagstæðra námslána til að fjármagna háskólanám.

Engin byrði

Ég er því ákaflega þakklátur að hér var á sínum tíma byggt upp velferðarkerfi og skattkerfi til að standa undir því. Að tala um skattbyrði er sem guðlast í mínum eyrum. Það er mér engin byrði að greiða hluta af tekjum mínum til að tryggja að ungt fólk geti menntast eins og ég fékk tækifæri til, að fólk sé fjárhagslega tryggt þrátt fyrir heilsubrest á besta aldri eins og faðir minn, eða geti dvalist á sjúkrahúsi og notið umönnunar þar þegar heilsan bregst á gamals aldri eins og móðir mín.

En velferðarkerfi okkar er engan veginn fullkomið, það þarf að bæta í frekar en hitt. Þess eru dæmi að fólk greinist með alvarlega sjúkdóma og þarf að gangast undir kostnaðarsama meðferð sem það þarf sjálft að greiða að hluta. Og fjárhagsáhyggjur bætast við áhyggjur vegna sjúkdómsins. Það er góðra gjalda vert að sjúkrasjóðir stéttarfélaganna taki þátt í kostnaði við meðferð eða dvöl á sjúkrahúsi. En hvað með þá sem eru hættir að vinna og eiga ekki lengur aðgang að sjúkrasjóðum?

Sumir hafa slíkar tekjur eða eignir að þá munar ekkert um að greiða fullu verði fyrir skólagöngu barna sinna eða læknisþjónustu og umönnun þegar heilsan bregst. Ef einhverjir þeirra, sem nú hafa mest pólitísk völd, eru í þeirri stöðu, þá bið ég þá að líta til hinna sem ekki hafa slíka tryggingu á eigin bankareikningum. Ég hef hvorki slíkar tekjur né eignir, en ég vil gjarnan fá tækifæri til að borga skatta jafnt og þétt til að tryggja velferð mína og samborgara minna. Lífskjör mín batna ekki með lægri sköttum ef sú trygging veikist.




Skoðun

Sjá meira


×