Skoðun

Alls konar mjólk er góð

Brynhildur Pétursdóttir skrifar
Fáar þjóðir leggja jafn mikið á sig til að koma í veg fyrir innflutning á landbúnaðarvörum og við Íslendingar. Það gerum við með því að leggja tolla og vörugjöld á innfluttar landbúnaðarvörur. Í einhverjum tilfellum flytjum við inn tollfrjálsar landbúnaðarvörur (vegna alþjóðlegra samninga um tollkvóta) en þá eru þeir tollkvótar boðnir út og það skilar sér á endanum út í verðlagið.

Markmiðið með þessari stefnu er að þjóðin haldi sig við innlendar landbúnaðarafurðir og fúlsi við þeim erlendu verðlagsins vegna. Ég fæ ekki betur séð en að allir stjórnmálaflokkar sem verið hafa við völd styðji þessa verndarstefnu. Í byrjun síðasta kjörtímabils var meira að segja gefið í og tollar hækkaðir það mikið að seljendur töldu sér vart fært að standa í sölu á innfluttum landbúnaðarvörum.

Nú hefur Björt framtíð lagt fram frumvarp sem snýr að því að afnema tolla og vörugjöld á staðgengdarvörur mjólkur, þ.e; hrís-, soja-, möndlu- og haframjólk. Þeir sem ekki neyta mjólkur eiga ekki að þurfa að gjalda fjárhagslega fyrir það og því er réttlætismál að tollar og vörugjöld af þessum vörum verði lögð niður hið snarasta.

Verðmunurinn á mjólk og staðgengdarvörum hennar er víst nægur fyrir. Þetta er lítið en mikilvægt skref í rétta átt.

Margir eru þeirrar skoðunar að vernda eigi innlenda landbúnaðarframleiðslu með öllum ráðum. Neytendum sé einfaldlega ekki treystandi fyrir því að velja „rétt“ þegar kemur að þessum málaflokki. Það er að mínu mati röng stefna. Frjáls markaður gengur jú út á að neytendur velji og hafni og eftir því sem þeir hafa meira val, því betra.

Nú er það auðvitað ekki þannig að þau sem drekka kúamjólk hætti því þótt valkostunum fjölgi — hin eiga hins vegar fullan rétt á að velja eitthvað annað. Alls konar mjólk er nefnilega góð og það er ósanngjarnt að refsa þeim fjárhagslega sem vilja hella sojamjólk út á morgunkornið sitt. Um það eru eflaust allir sammála og ég á því ekki von á öðru en að þetta mál fái framgang á Alþingi.




Skoðun

Sjá meira


×