Skoðun

Falleinkunn Orkustofnunar

Sif Konráðsdóttir skrifar
Árið 2011 bað iðnaðarráðuneytið norsku orkustofnunina, NVE, um að gera úttekt á starfsemi Orkustofnunar. Tilefnið var breytt lagaumhverfi og nýtt hlutverk sem fengið var Orkustofnun; eftirlit. Raforkueftirlit Orkustofnunar fékk falleinkunn í úttekt norsku systurstofnunarinnar. Eftirlitið var afar veikburða. Lagðar voru til úrbætur.

Í liðinni viku gaf Orkustofnun út leyfi til Landsnets til að byggja ákaflega öfluga raflínu um Reykjanes, svokallaða Suðvesturlínu. Starfssvæði Landsnets er Ísland. Andmæli komu gegn því að svo öflugt mannvirki þyrfti suður með sjó og bent var á vægari leiðir að því markmiði að tryggja raforkuöryggi. Þau andmæli lét Orkustofnun ekki á sig fá en samþykkti í einu og öllu það sem Landsnet lagði fram. Oft er þó rökstuðningurinn rýr og á stundum alveg óskiljanlegur.

Á það t.d. við um það þegar Orkustofnun endurtekur upptalningu Landsnets á öllum mögulegum virkjunarkostum skv. rammaáætlun auk núverandi uppsetts afls á Reykjanesi og heldur því fram að til að flytja allt það hugsanlega afl í einhverri óskilgreindri framtíð þá verði að leyfa hina öflugu línu. Þar er ruglað saman hugsanlegri getu til að virkja annars vegar og hins vegar þörfinni fyrir allt rafmagnið í skilgreindri framtíð. Ekki hefur verið sýnt fram á þörfina.

Meðal þess sem Orkustofnun á að gæta að er að ekki séu reist flutningsmannvirki sem ekki er þörf á. Þetta er nauðsynlegt eftirlit, þar sem fjárfestingum Landsnets er veitt út í gjaldskrá án aðhalds markaðarins. Til að gegna þessu hlutverki þarf Orkustofnun að leggja sjálfstætt mat á þörf fyrir mannvirki. Það gerði hún ekki í tilviki Suðvesturlínu. Hún rækti því ekki lögbundið eftirlitshlutverk sitt. Þær úrbætur sem lagðar voru til í skýrslu norsku stofnunarinnar árið 2011 hafa því annaðhvort ekki verið gerðar eða ekki borið tilætlaðan árangur.




Skoðun

Sjá meira


×