Skoðun

Afsökunarbeiðni til Hjallastefnunnar

Fanný Heimisdóttir skrifar
Fyrir nokkru skrifaði ég grein um naumhyggju í leikskólum og/eða heima. Þar ræddi ég óvarlega um Hjallastefnuna. Skrif mín styggðu marga og það þykir mér miður, ég bið afsökunar á því að hafa notað orð sem særðu. Það er ekki til framdráttar í umræðu. Ég biðst afsökunar, Margrét Pála og Hjallastefnufólk.

Og nú að því sem ég sagði um víkinga; stundum er gott að geta bent á andstæður máli sínu til stuðnings. Mér finnst það bera í sér andstæðu þegar þeir sem hafa meira en flestir skapa orðræðu um ágæti nægjusemi eða jafnvel naumhyggju. En að kalla það fólk víkinga er e.t.v. að uppnefna.

Umræða verður samt mjög erfið þegar það verður margt sem ekki má segja. Þróun í samfélagi krefst nýrrar málnotkunar, við þurfum að máta orð í nýju samhengi. Víkingur er ágætt orð yfir þann sem hefur sótt sér krafta umfram aðra. Saman búum við til kerfi þar sem sumir fá tækifæri til að fara í víking, aðrir verða þrælar ef við notum líkinguna áfram. Í núningi samfélagsþróunar þurfa margar og misjafnar raddir að heyrast og það er mikilvægt að halda á lofti umræðu en vanda um leið það sem sagt er. Hér á við eins og svo oft að það „er ekki hvort, heldur hvernig“.




Skoðun

Sjá meira


×