Skoðun

Nektardans á ekki að vera afþreying

Baldvin Þormóðsson skrifar
Starfsemi kampavínsklúbba hefur verið í deiglunni undanfarið. Af hverju? Kampavínsklúbbar eru leifar feðraveldis. Gamaldags hugsunarháttar sem setur konur skör lægra í virðingarstiganum en karla. Á kampavínsklúbbum er mönnum boðið upp á að kaupa nektardans sem hefur verið hluti af kynlífsiðnaði heimsins alveg síðan kynlíf var iðnvætt á dögum þrælahalds. Í nútímanum ætti nektardans því í raun alls ekki að vera afþreying.

Í minni kreðsu og ákveðinnar deildar innan Háskólans virðist það viðhorf ríkjandi að ekkert sé að því að stunda kampavínsklúbba svo lengi sem það er í þeim tilgangi að „skemmta sér með vinum“ og ekkert annað en einkadansinn sé keypt. Sumir, innan þessarar kreðsu, ganga jafnvel svo langt að segjast vera á móti kampavínsklúbbum en þeir fari bara upp á grínið og stemninguna.

Ef þú styrkir starfsemi staðanna með því að fara þangað og eyða pening þá ertu hluti vandans.

Hvernig fáum við karla til að breyta þessu viðhorfi sínu til kvenlíkamans? Þeir karlmenn, og óbeinir talsmenn starfseminnar, sem ég hef rætt við hafa gefið mér loðin svör um ástæður sem liggja að baki ásókn í svona starfsemi. Einn þeirra sagði mér að hann þyldi illa angistina í augum kvennanna en hann stundaði staðina samt án þess að vita hvers vegna. Gefur það eitt og sér ekki vísbendingu um hversu djúpt er á feðraveldinu?

Snýst um völdin

Margoft hefur komið fram að tölfræði bendi til að margar kvennanna sem snúa sér að nektardansi hafi orðið fyrir kynferðislegri misnotkun á lífsleiðinni. Hvernig er hægt að vera meðvitaður um eitthvað slíkt og kjósa að líta fram hjá því? Konur sem hingað koma, koma oftar en ekki frá löndum þar sem neyð þeirra hrakti þær í sölu á líkama sínum. Ég spyr aftur; hvernig er hægt að vera meðvitaður um slíkt og kjósa að misnota þá neyð? Ef nektardans væri sú ákjósanlega starfsgrein sem þeir vilja meina að hún sé, væru þá ekki fleiri konur með öðruvísi bakgrunn að velja þá starfsgrein?

Menn sem sækja í „nánd“ kvenna með þessum hætti vita sjálfir að allt náið og persónulegt er klippt út úr samskiptunum. Þegar allt kemur til alls er þetta því ekkert annað en önnur, lægra sett, manneskja að veifa kynfærunum sínum framan í þig – hversu erótískt er það? Ergo: nándin er ekki raunveruleg, ástin engin og einu samskiptin eru þegar hún afhendir líkama sinn í stundarkorn og hann pening. Eins auðvelt og það er að fletta upp kynfærum á internetinu, af hverju þá að eyða pening í einkadansinn?

Ástæðan er jafn augljós og hún er vonlaus. Þetta snýst ekki um dansana heldur snýst þetta um völdin. Völdin sem þeir upplifa sig með þegar þeir kaupa sér aðgang að líkama annarrar manneskju.

Ef sú staðreynd að sala á líkama sé auðveldasta leiðin til þess að eignast pening þá bendir sú staðreynd á kúgað samfélag. Það er eitthvað sem verður að berjast gegn. Þangað til að konur verða álitnar sem manneskjur en ekki hlutir og sem hugsandi verur en ekki kynóð leiktæki, þá heldur baráttan áfram. Þangað til þá get ekki séð kampavínsklúbba sem neitt annað en birtingarmynd feðraveldisins og tregðu okkar sjálfra til að breyta samfélaginu í jafna þágu allra.




Skoðun

Sjá meira


×