Skoðun

Ungmennatrygging í Reykjavík

Sverrir Bollason skrifar
Ungir karlmenn í Reykjavík eru margir illa staddir og ég hef áhyggjur af þróuninni. Ef rýnt er í tölur um fjárhagsaðstoð er ljóst að stærsti einstaki notendahópurinn í Reykjavík er ungir karlmenn.

Það þýðir að þeir eru ekki í vinnu og líklega ekki í skóla, óvirkir þátttakendur í samfélaginu. Við höfum séð hvað andvaraleysi gagnvart slíku ástandi getur þýtt. Óeirðir í París, London og Stokkhólmi á liðnum misserum voru afleiðing af vanmáttarkennd, áhrifaleysi og skorti á skilningi á aðstæðum ungs fólks, ekki síst ungra karlmanna.

Rétt er að taka fram að íslensk ungmenni eru til mikillar fyrirmyndar heilt á litið. Þau stunda heilbrigðara líferni en fyrirrennarar sínir og nýta vel þau fjöldamörgu tækifæri sem hefur verið kappkostað að bjóða í námi, íþróttum og listum. Þegar svo vel tekst til við að umbreyta þeim slæmu siðum sem hér tíðkuðust áður verður sárara að sjá stækkandi hóp ungmenna sem sér ekkert í spilunum fyrir sig.

Á Íslandi er atvinnuþátttaka með því allra mesta sem gerist í heiminum. Sjálfsmynd Íslendinga er að mjög miklu leyti samofin þátttöku á vinnumarkaði og á það sérstaklega við um karlmenn sem jafnframt eiga sín sterkustu félagslegu tengsl á vinnustaðnum. Þá er atvinnuþátttaka kvenna óvenju mikil hér á landi.

Almennt vinna Íslendingar marga og langa daga í samanburði við nálægar þjóðir og gildir það um ungmennin líka, sem vinna fleiri daga í viku meðfram námi en jafnaldrar þeirra annars staðar á Norðurlöndunum. Þessi staða skapar töluverðan þrýsting á að fólk sé í vinnu og taki þeirri vinnu sem bjóðist. Þannig er okkar samfélagssáttmáli búinn að vera, þeir vinna sem geta og vinnan verður útveguð.

Ekki má gefa eftir

En hvað gerum við þegar ungt fólk fær ekki aðild að sáttmálanum? Störfin bjóðast ekki eða þeim gefst ekki tækifæri til að vinna þau störf sem bjóðast. Hvað gerum við þegar uppeldi, skóli og atvinnulíf hafa skapað væntingar um innihaldsrík og skemmtileg framtíðarstörf en engin slík verða til? Eða hvað gerum við þegar væntingar um laun og starfsaðstæður eru órafjarri því sem menntun og árangur getur staðið undir?

Til næstu ára litið þá er ekki mikil von til þess að ungir menn sem hafa verið óvirkir um hríð geti gert mikið til að rétta stöðu sína hjálparlaust. Þegar fram líða stundir geta þeirra vandamál undið upp á sig og þeirra vandi verður vandi maka þeirra og barna. Ýmis virkniúrræði eru í gangi til að tækla þann vanda. Þar má ekki gefa eftir því öll virkni er leið til betri lífsskilyrða.

Mest um vert er þó að skapa ekki aðstæður vonleysis hjá fleiri ungmennum. Mín tillaga er því sú að Reykjavíkurborg taki upp ungmennatryggingu. Við sameinumst um að hver einasti einstaklingur á aldrinum 16-20 ára fái tækifæri til að mennta sig, stunda starfsnám eða fái vinnu við hæfi. Stöðvum brottfallið úr framhaldsskólanum með því að finna fyrst nám við hæfi, styðjum svo við þá sem eru í hættu að flosna upp. Raunar ætti að ganga lengra og sýna hverju einasta ólögráða ungmenni að samfélaginu er ekki sama um framtíð þess og fylgja þeim betur eftir sem þess þurfa.




Skoðun

Sjá meira


×