Skoðun

Ertu ekkert hrædd?

Sigþrúður Guðmundsdóttir skrifar
Það er ekki alveg það sama; að vita og að skilja. Í sjö ár hef ég unnið í Kvennaathvarfinu og á þeim tíma hef ég lært margt um heimilisofbeldi og áhrif þess á börn. Ég hef setið, kannski ekki hundrað milljón fundi (en mér finnst stundum að það hljóti að vera nærri lagi), fyrirlestra og ráðstefnur, hef lesið ótal skýrslur og greinar um málið, horft á fræðslumyndir og hangið á netinu tímunum saman við að afla mér þekkingar.

Ég hef talað við hundruð kvenna sem hafa búið við ofbeldi bæði sem börn og á fullorðinsárum og sem hafa alið upp sín börn á ofbeldisheimilum. Ég hef talað við mörg af þessum börnum.

Sumt af þessu hefur skilað mér þekkingu, annað síður og ég geri mér ekki grein fyrir því hvenær ég lærði hvað um áhrif ofbeldis á börn en ég man nákvæmlega hvenær ég skildi.

Það var vetur, það var dimmt og það rigndi. Ég var að tygja mig til heimferðar úr athvarfinu. Það var hlýtt og fjörugt inni í húsinu og það var að bresta á pitsuveisla. Einn strákurinn var ósáttur við það að ég væri að fara og var greinilega búinn að gleyma því að ég hafði þurft að skammast aðeins í honum fyrr um daginn. Hann spurði hvort ég ætlaði ekki að borða með þeim og ég sagði honum að ég væri að fara heim.

Hann varð undrandi og svolítið skelkaður. „Heim“, sagði hann, „ertu ekkert hrædd?“ Og ég horfði í brúnustu augu í heimi og áttaði mig á því að þau höfðu séð ýmislegt sem væri bannað börnum ef það væri sjónvarpsefni. Þau höfðu séð svo hræðilega hluti að ég gat ekki ímyndað mér þá, gat ekki ímyndað mér angist hans og ótta.

Skelfingu lostin

Og mig langaði til að útskýra fyrir honum að vissulega væri ég pínulítið skelkuð á hjólinu í myrkrinu, sérstaklega þar sem ég hafði trassað að setja almennileg ljós á það en að heima hjá mér væri ekkert að óttast. Að þannig séu heimili; þar eigi fólk ekki að óttast neitt hversu hræðilegur sem heimurinn er fyrir utan. Mest af öllu langaði mig til að lofa honum að næst þegar hann færi heim, þá þyrfti hann ekki að vera hræddur en það loforð hefði ég ekki getað staðið við.

Þetta kvöld skildi ég loksins almennilega að á Íslandi búa börn sem eru hrædd við að fara heim. Þau eru skelfingu lostin í eldhúsinu, í stofunni og undir sænginni sinni. Þau eru hrædd við að koma heim en líka hrædd við að fara að heiman af því að það getur svo hræðilega margt gerst á meðan þau eru í burtu. Kannski gerist einmitt það skelfilegasta af öllu þegar þau eru í örygginu á skólalóðinni, að paufast yfir Kringlumýrarbrautina í síðdegisumferðinni eða alein á heimleið í strætó.

Í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem lögfestur hefur verið á Íslandi, segir að vernda skuli öll börn gegn hvers kyns ofbeldi, misnotkun, skeytingarleysi og vanrækslu. Það markmið hefur okkur ekki tekist að uppfylla.




Skoðun

Sjá meira


×