Skoðun

Villandi umfjöllun um utangarðsfólk

Þorleifur Gunnlaugsson skrifar
Fréttablaðið fjallaði um utangarðsfólk í síðasta helgarblaði og svo í mánudagsblaðinu. Þar var rætt við formann velferðarráðs og framkvæmdastjóra þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða.

Ekki vísað frá?

Í helgarblaðinu var grein undir fyrirsögninni: „Ekki fleiri heimilislausum vísað frá“ og var þar vísað til þess að opnað hefur verið annað neyðarskýli fyrir karla, til bráðabirgða. Fyrirsögnin er villandi, því um er að ræða rými fyrir fimm manns (eins og kemur reyndar fram síðar í fréttinni), en fyrir liggur að fleirum hefur verið vísað frá Gistiskýlinu í ár og allt að sjö karlar hafa til að mynda gist fangelsi af þessum sökum. Það má því búast við því að áfram verði fólki vísað frá neyðarskýlum.

Í fréttinni eru eftirfarandi ummæli höfð eftir Björk Vilhelmsdóttur:

„En það er forgangsmál að koma í veg fyrir að menn þurfi að sofa úti. Það hefur alltaf verið stefna okkar.“

Utangarðsmenn hafa þurft að sofa úti allt þetta ár og reyndar á síðasta ári líka. Björk og félagar voru fyrr á árinu búin að hafna því staðfastlega að fjölga plássum, en skiptu um skoðun nýverið vegna mikils þrýstings, þó þannig að ekki verður öllum tryggð gisting. Yfirlýsing Bjarkar hvað þetta varðar er því vægast sagt villandi.

Hafna heimilislausir húsnæði?

Í grein Fréttablaðsins á mánudag undir fyrirsögninni „Heimilislausir hafna húsnæði“ er vitnað í Sigtrygg Jónsson, sem beinlínis er sagður halda þessu fram. Í fréttinni er reyndar dregið úr alhæfingunni, sagt að um þetta séu dæmi og vitnað í Björk Vilhelmsdóttur: „Sumir eru hreinlega fastir á þessum stað í tilverunni, að gista í Gistiskýlinu og nýta sér neyðarúrræði í stað þess að reyna að koma undir sig fótunum.“

Staðreyndin er sú að fyrir utan Mýrina (fyrir konur í neyslu) hafa ekki komið fram nein sérstök búsetuúrræði fyrir utangarðsfólk síðan árið 2008. Á þessum tíma hefur utangarðsfólki fjölgað hratt. Áhrifa þessa gætti í fyrra, þegar verið var að vísa frá Gistiskýlinu tvisvar í mánuði að jafnaði, en sprenging hefur orðið á þessu ári og nú er verið að vísa frá tæplega 57 sinnum á mánuði að jafnaði. Öll úrræði eru löngu fullnýtt, þó svo að alltaf sé einhver hreyfing.

Vaxandi skortur er á almennu félagslegu húsnæði og virkir fíklar eru ekki í fyrsta sæti þegar verið er að úthluta þangað. Fyrir þá sem komnir eru á götuna er því verulega erfitt að koma undir sig fótunum.

Viðvarandi skortur á úrræðum

Á fundi sem haldinn var um málefni utangarðsfólk um daginn sagði einn fundarmanna frá því að hann væri að reyna að komast úr Gistiskýlinu og í heimili fyrir utangarðsfólk á Njálsgötu, en þar losnaði ekkert nema einhver deyi. Á sama fundi vitnaði undirritaður í samtal við tvo utangarðsmenn sem vilja vera edrú en gengur illa því þeim er ekki boðið upp á neitt annað en að gista með mönnum í neyslu í Gistiskýlinu í Þingholtsstræti.

Björk Vilhelmsdóttir segir í síðara viðtalinu að verið sé „að vinna í að breyta inntökuskilyrðum í Gistiskýlið og búa til þjónustukeðju. Þannig fari menn af einum stað á annan og geti ekki hafnað tilboðum.“

Þessu er til að svara að fíknin er harður húsbóndi og auðvitað eru þeir til sem láta alla sína fjármuni renna til kaupa á vímugjöfum og eiga ekki fyrir leigunni.

Gagnvart þeim verður að fara aðrar leiðir en að setja skilyrði sem fela í sér hótun um brottrekstur úr neyðarskýli.

Allt tal um þjónustukeðju er hins vegar marklaust ef ekki eru til búsetuúrræði til að taka við umræddum einstaklingum. Slík úrræði eru ekki í pípunum af hálfu borgaryfirvalda ef marka má nýsamþykkta fjárhagsáætlun.

Fréttaflutningur af þessu tagi er ekki til þess fallinn að auka skilning á vandanum, því af honum má jafnvel ráða að vandinn sé utangarðsfólki sjálfu að kenna.




Skoðun

Sjá meira


×