Skoðun

Opið bréf til líkamsræktarstöðva - Er einkaþjálfarinn tryggður?“

Guðrún Ragnarsdóttir skrifar
Það þekkja það allir sem hafa komið inn á líkamsræktarstöð að þar starfa einkaþjálfarar. Menntun þeirra og reynsla getur verið mjög mismunandi en það er allt önnur umræða. Einkaþjálfarar eru annaðhvort starfsmenn líkamsræktarstöðvarinnar eða sjálfstætt starfandi.

Ef einkaþjálfari er sjálfstætt starfandi greiðir hann svokallað aðstöðugjald til líkamsræktarstöðvarinnar og greiða þá viðskiptavinirnir honum beint fyrir þjálfunina.

Fyrir rúmum tveimur árum síðan slasaðist eiginmaður minn alvarlega þegar hann var hjá sjálfstætt starfandi einkaþjálfara á einni af líkamsræktarstöðvum höfuðborgarsvæðisins. Slys gera ekki boð á undan sér og þannig var það líka í þessu tilfelli. Það kom okkur hins vegar verulega á óvart þegar við fórum að leita réttar eiginmanns míns til bóta vegna þess skaða sem hann hafði orðið fyrir að enginn var rétturinn.

Þannig var mál með vexti að líkamsræktarstöðin taldi sig ekki bótaskylda þar sem ekkert tengt aðstöðunni varð til þess að slys hlaust af og einkaþjálfarinn í sinni vinnu var ótryggður gagnvart viðskiptavinum sínum. Eftir okkar eftirgrennslan er frístundatrygging viðskiptavina sú trygging sem bætir slys af þessu tagi og þá er spurning hvort fólk almennt sé með slíka tryggingu eða viti af þessu fyrirkomulagi.

Þeir sem hafa nýtt sér einkaþjálfun vita að hún er ekki gefins og því mætti ætla að einkaþjálfarar hefðu ráð á því að kaupa sér ábyrgðartryggingu. Mig grunar hins vegar að svo sé ekki og í stað þess að senda bréf á allar líkamsræktarstöðvar landsins ákvað ég að skrifa opið bréf þar sem ég spyr: „Eru einkaþjálfarar á þinni stöð tryggðir?“

Ef svarið er já þá vil ég hrósa þér sérstaklega fyrir þá fyrirhyggju en ef svarið er nei hvet ég þig eindregið til að gera þá kröfu til þeirra einkaþjálfara sem starfa á þinni stöð að fá sér ábyrgðartryggingu. Í raun finnst mér eðlilegast að það sé gerð krafa um að þeir einkaþjálfarar sem starfa á ákveðinni líkamsræktarstöð staðfesti að þeir séu tryggðir.

Eins og fyrr segir gera slys ekki boð á undan sér. Ég trúi því að starfandi einkaþjálfarar leggi sig fram við að tryggja öryggi viðskiptavina sinna en því miður dugar það oft ekki til. Það er því eðlileg krafa að allir sjálfstætt starfandi einkaþjálfarar séu með ábyrgðartryggingu ef svo illa vill til að slys beri að höndum.




Skoðun

Sjá meira


×