Skoðun

PISA-könnun, iðnnám og menntastefna

Guðmundur J. Guðmundsson skrifar
Undanfarna daga hefur um fátt verið meira rætt manna á meðal og í fjölmiðlum en nýbirta PISA-könnun sem sýnir svo ekki verður um deilt að víða er pottur mölbrotinn í grunnskólakerfinu. Þetta eru svo sem ekki ný sannindi fyrir þá sem til þekkja innan menntakerfisins en ætti nú að vera augljóst öllum sem skilja vilja.

Annað olnbogabarn menntakerfisins er starfs- og iðnnám en það er kunnara en frá þurfi að segja að allt of fáir leggja slíkar greinar fyrir sig. Það virðist því á borð leggjandi hvaða verkefni séu mest aðkallandi fyrir nýjan, kraftmikinn og metnaðarfullan menntamálaráðherra.

Eini þáttur skólakerfisins fram að háskólanámi sem er í þokkalegu standi er bóknám til stúdentsprófs. Það skilar flestum stúdentum frá sér með viðunandi undirbúning undir háskólanám, hafi þeir á annað borð áhuga á því, og það hefur hingað til verið traustur aðgöngumiði íslenskra stúdenta að erlendum háskólum.

Umbætur og lagfæringar á brotalömum grunnskólans og efling starfs- og iðnnáms eru því verkefni dagsins og sá ráðherra sem kæmi þeim í þokkalegt horf myndi skrá nafn sitt varanlega á spjöld menntasögu þjóðarinnar. En, nei, menntamálaráðherra hefur að vísu áhyggjur af ástandinu í grunnskólanum en hans aðalmarkmið og verkefni á kjörtímabilinu er að stytta og skerða bóknám til stúdentsprófs, á iðnnám hefur ekki verið minnst.

Það er erfitt að átta sig á stefnu núverandi ráðherra í menntamálum þar sem markmiðið virðist einkum vera að hunsa vandamálin og skaða það sem þó er í sæmilegu lagi. Líklega eiga hér best við orð sýslumannsins á Akranesi þegar hann frétti að mannvitsbrekkurnar í innanríkisráðuneytinu hefðu falið sýslumanninum í Stykkishólmi að tollafgreiða skip sem lögðu að í Hvalfirði: „Hafa þetta bara sem vitlausast.“




Skoðun

Sjá meira


×