Skoðun

Draumurinn um háskólasjúkrahúsið

Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir skrifar
Læknarnir á Landspítala hafa komið málefnum spítalans á dagskrá stjórnvalda. Eitt er þó að koma málum á dagskrá, annað að ráða niðurstöðunni. Ástandið á Landspítala er ekki nýtt. Það er rökrétt framhald af sameiningu sjúkrahúsanna í Reykjavík á sínum tíma.

Markmiðið með sameiningunni fól í sér hugmyndir sem eru ósamrýmanlegar. Nú eru læknarnir á Landspítala ef til vill að vakna upp við það að draumur þeirra um háskólasjúkrahúsið var sýnd veiði en ekki gefin.

Fjármálaráðuneytið undir stjórn Sjálfstæðisflokksins stefndi að því að sameina í þeim tilgangi að ná tökum á kostnaði sjúkrahúsanna, hafa sjúkrahúsþjónustuna sem minnsta en koma öllu því sem hægt væri að koma „út á markað“ í einkarekstur. Miðstýring hefur einkennt stefnu Framsóknarflokksins í heilbrigðismálum og vilji til að halda grunnþjónustunni í opinberum rekstri. Læknar á Landspítala létu sig dreyma um eitt stórt háskólasjúkrahús í þágu vísinda, þekkingar og gæða. Þarna náðist saman um lausnina að sameina sjúkrahúsin í Reykjavík. Aftur á móti voru markmiðin með sameiningunni í raun afar ólík.

Framsóknarflokkurinn fór með heilbrigðismálin og sameining sjúkrahúsanna í Reykjavík var í samræmi við stefnu þeirra og trú á hagkvæmni stærðarinnar. Markmið þeirra féll ágætlega að hugmynd akademískrar læknisfræði um hinn „krítíska fjölda“ sem liggur að baki sameiningu háskólasjúkrahúsa. Hugmyndin um hinn „krítíska fjölda“ er kjarninn í uppbyggingu sérhæfingar og kveður á um ákveðinn lágmarksfjölda sjúklinga svo læknar geti byggt upp og viðhaldið sérfræðilegri þekkingu.

Eykst af sjálfu sér

Markmiðin í stefnu Sjálfstæðisflokksins um eitt sjúkrahús voru að geta náð betri tökum á stjórn sjúkrahússins til að draga úr starfsemi þess og stuðla þannig að þeirri þróun sem fólst í auknum einkarekstri utan sjúkrahússins (creeping privatization). Framsóknarflokknum var ef til vill ekki ljóst á þessum tíma að sameining á opinberri þjónustu er oftast áfangi til aukins einkarekstrar. Á meðan einblínt var á sameiningu sjúkrahúsa til að draga úr tvöföldun starfsemi og tækjabúnaðar þá misstu menn sjónar á heilbrigðiskerfinu utan sjúkrahúsanna þar sem tæknivæddar einkareknar læknastofur spruttu upp eins og gorkúlur á haug.

Það samræmist ekki hugmyndum Sjálfstæðisflokksins um dreifstýringu og einkarekstur að sameina og byggja upp „bákn“ sem erfitt er að stjórna nema að í því felist tækifæri til að endurskilgreina og einkavæða hluta starfseminnar. Þessi tækifæri eru búin til með því að halda áfram að ítreka kröfuna um hagræðinguna sem lofað var með sameiningu sjúkrahúsanna. Verði því haldið til streitu þá eykst einkareksturinn af sjálfu sér; hann einfaldlega „gerist“. Þessi stefna grefur hins vegar undan hugmyndinni um hinn „krítíska fjölda“ sjúklinga og getur því sett drauminn um háskólasjúkrahúsið í uppnám.

Samanborið við heilbrigðiskerfi í nágrannalöndunum þá einkennist kerfið á Íslandi af mikilli notkun þjónustu á dýrustu hlið kerfisins, þ.e. sérgreinalæknaþjónustu, stofnanarýmum og dýrum lyfjum. Hér er hlutfall lækna og hjúkrunarfólks á hverja þúsund íbúa og stofnanarýma fyrir aldraða á hverja þúsund íbúa yfir 65 ára hvað hæst. Hér eru fleiri myndgreiningartæki, (segulóm- og tölvusneiðmyndatæki) miðað við höfðatölu en fyrirfinnst í nokkru öðru landi innan OECD. Fjöldi þessara tækja meira en tvöfaldaðist milli áranna 2000 og 2011.

Miðað við þá athygli sem vandamál Landspítalans hafa nú fengið og þann mikla tækjabúnað sem til er í landinu blasa nú við „kjöraðstæður“ sem geta réttlætt enn frekari flutning verkefna af Landspítala út í bæ. Þar eru jú tæki sem nýta má betur. Þannig er stefna látin „gerast“ eins og af illri nauðsyn. Á meðan fjarar undan hinum „krítíska fjölda“ sjúklinga á háskólasjúkrahúsinu.




Skoðun

Sjá meira


×