Skoðun

Enn ein tilraun til einkavæðingar

Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir skrifar
Meirihluti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar telur ástæðulaust að láta kanna með einhverjum sérstökum hætti hagkvæmni þess að selja 15,4% hlut Hafnarfjarðar í HS Veitum. Það er ástæðan fyrir því að bæjarfulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar í bæjarstjórn Hafnarfjarðar greiddu atkvæði gegn tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að láta kanna hvort hagkvæmt væri að bærinn seldi hlut sinn í HS Veitum.

Hlutur Hafnarfjarðar

Rafveita Hafnarfjarðar og Hitaveita Suðurnesja sameinuðust árið 2001 og var breytt í hlutafélag. Við sameininguna eignaðist Hafnarfjarðarbær u.þ.b. 1/6 hlut í fyrirtækinu. Sá hlutur var og er í samræmi við virði þess orkudreifikerfis sem bærinn lagði inn árið 2001.

Árið 2006 ákvað ríkið að selja sinn hlut í Hitaveitu Suðurnesja sem gerði það m.a. að verkum að einkaaðilar eignuðust hlut í því. Í kjölfarið voru sett lög á Íslandi sem kváðu á um skilyrðislausan aðskilnað samkeppnis- og sérleyfisstarfsemi orkufyrirtækja. Hitaveitu Suðurnesja var þá skipt upp í tvö fyrirtæki, HS Orku og HS Veitur. HS Veitur er almenningsveita, dreifingarfyrirtæki sem er með einokunaraðstöðu á sínu sviði. Lög um veitufyrirtæki eru með þeim hætti að opinberir aðilar verða að eiga að lágmarki 51% hlutafjár.

Hingað til hefur ekki verið ágreiningur um þennan eignarhlut Hafnarfjarðarbæjar í veitufyrirtækinu. Það er því eðlilegt að við í Hafnarfirði eigum með beinni eignaraðild aðkomu og hlutdeild að HS Veitum sem er almannafyrirtæki í almannaþjónustu.

Stökkvum ekki á skyndilausnir

Það að reyna að draga upp þá mynd að nauðsynlegt sé að selja hlut Hafnarfjarðar í HS Veitum vegna bágrar fjárhagsstöðu stenst ekki skoðun. Ef rekstur Hafnarfjarðarbæjar er skoðaður á þessu kjörtímabili sést hvernig núverandi meirihluti hefur markvist unnið að bættum fjárhag sveitarfélagsins bæði með markvissum skrefum í að auka tekjur og ekki síður með því að draga úr kostnaði í rekstri sveitarfélagsins með fjölbreyttum hætti.

Í staðinn fyrir að beina sjónum sínum að skyndilausnum, sem eru skammgóður vermir, þá hefur núverandi meirihluti Vinstri grænna og Samfylkingar lagt mikla áherslu á að stökkva ekki á skyndilausnir heldur hugsa til lengri tíma og huga að skipulegri uppbyggingu á styrkri fjárhagsstjórn hjá Hafnarfjarðarbæ.

Yfirlýst og samþykkt stefna Sjálfstæðisflokksins er að stuðla að einkavæðingu á sem flestum sviðum. Það er því aumt að þora ekki að koma bara hreint til dyranna og viðurkenna það. Þess í stað að reyna að réttlæta tillögu að sölu með því að reyna að draga fjárhagslega burði sveitarfélagsins í efa.

Bæjarfulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar höfnuðu því tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sem miðar að sölu á hlut bæjarins í HS Veitum, og ítrekuðu þá afstöðu að eignarhluti Hafnarfjarðarbæjar yrði áfram í samfélagslegri eigu. Meirihluti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar telur því með öllu ástæðulaust að láta kanna með einhverjum sérstökum hætti hagkvæmni þess að selja 15,4% hlut Hafnarfjarðar í HS Veitum.




Skoðun

Sjá meira


×