Skoðun

Að vera sjálfboðaliði er sjálfselska!

Magnea Sverrisdóttir skrifar
Í dag er alþjóðlegur dagur sjálfboðaliða haldinn hátíðlegur. Það er fátt dýrmætara í þjóðfélaginu en fólk sem gefur af tíma sínum til hinna ýmsu málefna.

Því hefur verið haldið fram að sjálfboðastarf auki lífsgæði fólks fyrir utan þau jákvæðu áhrif sem störf sjálfboðaliða hafa á samfélagið. Það eru forréttindi að fá að tilheyra samfélagi eða hópi fólks þar sem kraftar hvers og eins fá að njóta sín.

KFUM og KFUK á Íslandi er 114 ára gömul sjálfboðaliðahreyfing sem stendur að faglegu barna- og æskulýðsstarfi á kristilegum grunni. Það sem hefur einkennt starf KFUM og KFUK í gegnum tíðina eru sameiginleg markmið og ómæld vinna sjálfboðaliða á öllum aldri. Í KFUM og KFUK á Íslandi starfa u.þ.b. 500 sjálfboðaliðar í stjórnum, ráðum, nefndum, barnastarfi, fullorðinsstarfi, leikskóla og í sumarbúðum. KFUM og KFUK væri ekki það sem það er í dag nema vegna þeirra kynslóða af fólki sem gefið hafa vinnu sína og þannig sýnt umhyggju sína í verki.

Samfélagið hefur á síðustu árum í auknum mæli metið reynslu sjálfboðaliða. Til marks um það má nefna að sjálfboðaliðar í barna- og æskulýðsstarfi KFUM og KFUK hafa fengið metnar einingar í nokkrum framhaldsskólum, rétt eins og þeir sem stunda tónlistar- og listnám.

Það að vera sjálfboðaliði er í raun sjálfselska. Með því á ég við að þegar við gefum af tíma okkar með gleði erum við ekki bara að láta gott af okkur leiða heldur líka byggja okkur sjálf upp. Með því bætum við lífsgæði okkar. Það er ekki svo að skilja að einstaklingar sem gefa vinnu sína séu á einhvern hátt betri en aðrir. Þeir eru í sjálfboðastarfi vegna þess að það bætir einhverju jákvæðu í líf þeirra, annars væru þeir ekki að gefa af tíma sínum í hverri viku.

Um leið og KFUM og KFUK á Íslandi þakka öllum sínum sjálfboðaliðum fyrir vel unnin störf, eru öllum landsmönnum sem sinna sjálfboðastarfi í kirkjum, hjálparsveitum og hinum fjölmörgu félagasamtökum færðar þakkir fyrir dýrmæt störf landi og þjóð til heilla.




Skoðun

Sjá meira


×