Innlent

Samhjálp gefur 60 þúsund máltíðir í ár

Þorgils Jónsson skrifar
Karl V. Matthíasson, framkvæmdastjóri Samhjálpar, sem hér er ásamt starfsfólki og skjólstæðingi á Kaffistofunni segir engan koma þangað sem ekki þurfi þess.
Karl V. Matthíasson, framkvæmdastjóri Samhjálpar, sem hér er ásamt starfsfólki og skjólstæðingi á Kaffistofunni segir engan koma þangað sem ekki þurfi þess. Fréttablaðið/GVA
Á fjörutíu ára afmælisári Samhjálpar hafa umsvif sjaldan eða aldrei verið meiri þar sem á hverri nóttu gista tæplega 100 manns í rúmum sem samtökin búa um og í ár er útlit fyrir að þau gefi 55 til 60 þúsund máltíðir.

Karl V. Matthíasson, framkvæmdastjóri Samhjálpar, segir að tilgangurinn með starfinu sé í grunninn barátta gegn áfengis- og vímuefnavandanum. „Það eru á hverjum tíma hátt í 1.000 manns sem eru í einhvers konar úrræði vegna áfengis- eða vímuefnaneyslu og þetta er mesta hættan sem steðjar að samfélagi okkar.“

Starfsemi Samhjálpar er fjölþætt. Í fyrsta lagi er það meðferðarheimilið að Hlaðgerðarkoti þar sem um 30 manns eru jafnan í meðferð. Þá eru það þrjú áfangahús fyrir fólk sem er að koma úr meðferð og Gistiskýlið sem er rekið í samvinnu við Reykjavíkurborg og veitir heimilislausum húsaskjól.

Þar að auki er fjölbreytt félagsstarf á vegum Samhjálpar, en einn sýnilegasti þáttur starfseminnar er Kaffistofan við Borgartún þar sem tugir manna koma á hverjum degi til að fá heitan mat án endurgjalds. Karl segir það geta skipt sköpum fyrir skjólstæðinga kaffistofunnar að eiga þennan kost.

Í kaffistofunni vinna þrír starfsmenn auk sjálfboðaliða, en Samhjálp hefur einnig verið í samstarfi við Fangelsismálastofnun þar sem samfélagsþjónar hafa unnið.

„Þeir sem koma hingað að borða eru þeir sem þurfa að gera það. Það er enginn að gera sér það að leik að koma á Kaffistofuna að borða. Svo kemur það líka fyrir að fjölskyldufeður komi og sæki mat til að fara með heim til fjölskyldunnar.“

Stjórn Samhjálpar er skipuð af Fíladelfíu en Karl segir hvítasunnukirkjuna ekki koma nálægt rekstrinum.

„Menn vilja tengja þetta trúboði en það er ekkert svoleiðis,“ segir Karl. „Enda sjást engin merki þess á kaffistofunni til dæmis.“

Starfinu fylgir talsverður kostnaður, að sögn Karls, sem er kostaður af framlögum einstaklinga og fyrirtækja. „Við erum eiginlega í fjáröflun allt árið um kring,“ segir hann, en 28 manns vinna hjá Samhjálp auk sjálfboðaliða.



Félagskapurinn góður á Kaffistofunni

Fréttablaðið gaf sig á tal við tvo menn á Kaffistofunni, sem vildu ekki koma fram undir nafni.

Fyrri viðmælandi:

Ég kem hingað hérumbil á hverjum degi og hef gert mjög lengi. Ég kem hingað aðallega upp á félagsskapinn, því ég er svo mikil félagsvera. Hér er mjög gott fólk.“

Seinni viðmælandi:

Ég hef komið hingað á hverjum degi síðan ég varð edrú og hér er mjög gott að vera. Það munar mig mikið um að geta komið hingað og fengið að borða því að ellilífeyrinn minn er bara 170.000 á mánuði. Með þessu get ég sparað mér til að gefa börnunum mínum jólagjafir.“

Opið alla daga um jólin

Nú líður að jólum, sem eru jafnan erfiður tími fyrir skjólstæðinga Samhjálpar. Karl segir að opið sé alla daga í Kaffistofunni og þar eru jólin engin undantekning.

„Það hefur verið töluvert að gera hjá okkur á jólunum, en það er líka margir sem fá inni hjá sínum  nánustu yfir hátíðirnar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×