Skoðun

Stjórnarandstæðingar fangelsaðir

Birgitta Jónsdóttir skrifar
Stundum eru orð talin svo hættuleg að fólk er pyntað, það hverfur eða er svipt frelsi sínu án dóms og laga, eins og er tilfellið í Barein nú um stundir. Fljótlega eftir öldu mótmæla sem hófust árið 2011 voru 13 stjórnskipunarandstæðingar handteknir. „Glæpur“ þeirra var að tjá sig um ósk um að samfélagsgerð þeirra yrði breytt úr konungsveldi í lýðræði og að spillingunni myndi linna.

Þeir sem tilheyra þeim samfélagshópi í Barein sem skilgreindur er sem stjórnarandstaða með skoðanir sem ná eyrum almennings eru ógn í hugum valdhafa og þeir yfirleitt teknir úr umferð eins og raunin varð með ræðumennina 13 sem voru fangelsaðir í upphafi friðsælla mótmæla í Barein. Mennirnir áttu það sammerkt að hafa haldið ræður á Perlutorginu á hverju kvöldi á meðan á mótmælunum stóð.

Eftir að hafa verið pyntaðir í fangelsinu í tvo mánuði, hættu pyntingarnar vegna þeirrar alþjóðaathygli sem mál þeirra vakti, m.a. vegna aðgerða um stöðu þeirra hjá Amnesty International, en samtökin sérhæfa sig í að vekja athygli m.a. á samviskuföngum sem sæta hrottalegri meðferð.

Af þessum 13 mönnum sem voru ákærðir fengu 6 þeirra lífstíðardóm, 5 fengu 15 ára fangelsisdóm og 2 fengu 2 ár. Allir eiga þeir við langvarandi veikindi að stríða og þjást vegna þeirra linnulausu pyntinga sem þeir voru beittir. Reynt var að kæfa orð þeirra en við getum tryggt að það takist ekki.

Við sem búum við almennt tjáningarfrelsi, í landi þar sem enginn situr í fangelsi vegna skoðana sinna, getum gert eitthvað til að þrýsta á breytingar. Við getum sýnt samviskuföngum stuðning með því að taka þátt í bréfamaraþoni Amnesty International, m.a. fyrir fanga sem búa við að lífi þeirra og heilsu er ógnað. Sagan hefur sýnt að það hefur bjargað mörgum frá hörmulegum örlögum.

Taktu þátt í bréfamaraþoni Íslandsdeildar Amnesty International um land allt dagana 6. til 16. desember.




Skoðun

Sjá meira


×