Skoðun

Innan garðs svo draumar dafni

Arnaldur Máni Finnsson skrifar
Í síðustu viku var haldinn óformlegur stofnfundur hagsmunasamtaka utangarðsfólks sem áætlað er að rúmi breiðan hóp fólks með ólík sjónarmið. Samtökin eru sprottin úr frjóum jarðvegi grasrótarstarfs í þágu utangarðsfólks sem unnið hefur verið af aðstandendum og áhugafólki um málaflokkinn. Fimmtudagskvöldið 28. nóvember verður stefnumótun og starfi félagsins haldið áfram í matsal Ráðhúss Reykjavíkur.

Það er raunar sorglegt að markmiðin sem við þurfum að setja okkur séu jafn mörg og raun ber vitni, en þó ber að fagna því að Velferðarráð samþykkti að leggja til viðbótarrými við Gistiskýlið í Þingholtsstræti síðasta fimmtudag, til að brúa bilið þar til nýtt neyðarúrræði fyrir karlmenn á götunni verður tekið í gagnið næsta vor. Uppi eru hugmyndir um að hagsmunasamtökin rúmi bæði þau sjálf sem lent hafa utangarðs sem og aðstandendur þeirra. Áherslur félagsins mótist af þörfum og sjónarmiðum þeirra en allt áhugafólk um málaflokkinn sé velkomið að starfi félagsins.

Við verðum að auka vitund fólks um samtakamátt aðstandenda og áhugafólks þegar kemur að því að hreyfa við málum innan þess ramma sem Reykjavíkurborg býður upp á og þrýsta á ríkisvaldið að taka aukna ábyrgð á því sem kalla má „stóra höfuðborgarvandamálið“; utangarðsfólkinu okkar. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafi ekki axlað sína ábyrgð í málaflokknum og hvetjum við því öll þau sem málið snertir til að styðja eða ganga til liðs við félagið hvar sem þau eiga lögheimili í landinu enda er ekki um prívatvanda Reykvíkinga að ræða.

Við berum öll ábyrgð í samfélagi á þeim ólestri sem segja má að ríki í málaflokknum þrátt fyrir mikla viðleitni borgaryfirvalda til að bæta aðstæður þeirra sem eiga um sárt að binda vegna heimilisleysis og fíknivanda. Mörg úrræði fyrir notendahóp þjónustunnar eru og hafa lengi verið teppt og er húsnæðisvandinn gríðarlegur hjá þessum hópi, eins og raunar fleirum, en það er ekki eina markmið samtaka sem þessara að bætt sé úr því.

Aldrei hefur verið gerð gangskör að því, nema ef sjálfshjálparstarf Al-Anonsamtakanna er talið með, að skipulagður stuðningur við aðstandendur götufólksins sé í boði. Fjölskyldur sem hafa glímt við gríðarlegan vanda eru jafnvel brotnar og tvístraðar og aðstandandinn jafnan einangraður með „skömmina“ að geta ekki lengur hjálpað. Það félag sem verið er að stofna er félag fyrir þig, aðstandandi góður. Þar hittum við „okkar fólk“, annað áhugafólk um málaflokkinn og þar getum við látið gott af okkur leiða, samherjar sem viljum dvelja innan garðs og dafna.




Skoðun

Sjá meira


×