Skoðun

Gegn hernaðarhyggju og kynbundnu ofbeldi

Kristín Ástgeirsdóttir skrifar
Í 23. sinn efna Sameinuðu þjóðirnar til 16 daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi. Að þessu sinni er aðalbaráttumálið að kveða niður hernaðarhyggju og það mikla ofbeldi sem henni fylgir. Það hefur lengi verið ljóst að hvers kyns átök, ekki síst hernaðaraðgerðir, ýta undir ofbeldi gegn konum og börnum og æ oftar er kynferðisofbeldi notað sem vopn í styrjöldum þótt það sé stríðsglæpur.

Sem betur fer búum við Íslendingar ekki á átakasvæði en við finnum auðvitað fyrir áhrifum styrjalda við komu flóttamanna og hælisleitenda. Ótti við hryðjuverk hefur áhrif á líf okkar enda hefur hann leitt til fáránlegra njósna og víðtæks eftirlits um allan heim. Átök hafa alvarlegar afleiðingar á efnahag heimsins og valda eyðileggingu á umhverfi og menningarverðmætum sem skerðir lífsgæði. Allt kemur þetta okkur við sem hluta af mannkyninu, hluta af heimsþorpinu.

Árið 2013 verður lengi í minnum haft vegna afhjúpana ríkissjónvarpsins á kynferðisofbeldi gegn börnum, ekki síst drengjum, en það hefur löngum legið í þagnargildi hér á landi. Á eftir fylgdu hræðilegar sögur fólks sem sótti skóla kaþólsku kirkjunnar og því miður á eflaust eftir að fletta hulunni af margvíslegum ofbeldisglæpum gegn börnum, t.d. fötluðum börnum. Það síðastnefnda kom í ljós í skýrslu um ofbeldi gegn fötluðum konum sem birt var á árinu en þær skelfilegu frásagnir eru að öllum líkindum aðeins toppurinn á ísjakanum. Nú síðast sagði rithöfundurinn Vigdís Grímsdóttir frá sinni skelfilegu reynslu, nauðgun sem hún varð fyrir sem barn og hefur mótað líf hennar æ síðan.

Stjórnvöld brugðust við og skipuðu nefnd sem lagði fram ítarlegar tillögur um aðgerðir. Þáverandi ríkisstjórn samþykkti aðgerðaáætlun til að bregðast við kynferðisofbeldinu og brýnt er að fylgja henni eftir. Einnig stóðu þrjú ráðuneyti fyrir vitundarvakningu sem m.a. fólst í því að efnt var til funda með kennurum, starfsfólki heilbrigðisþjónustu og öðrum sem koma að málefnum barna.

Þessi mikla umræða hafði margvíslegar afleiðingar. Velferðarráðherra skipaði samstarfshóp um aðgerðir gegn ofbeldi í nánum samböndum og aðsókn að meðferðarúrræðinu Karlar til ábyrgðar stórjókst. Sama gerðist hjá þeim samtökum sem sinna aðstoð við brotaþola kynbundins ofbeldis. Það er gott hve margir leita sér aðstoðar ýmist til að losna úr viðjum langvarandi þagnar og þöggunar eða til að stöðva ofbeldishegðun. En betur má ef duga skal. Umræðan verður að halda áfram því tölur Kvennaathvarfsins, Stígamóta og annarra sem vinna gegn ofbeldi leiða í ljós hve kynbundið ofbeldi er útbreitt, margþætt og kynjað.

Konur og stúlkur eru yfirgnæfandi meirihluti brotaþola og karlar mikill meirihluti þeirra sem beita ofbeldi, líka gagnvart drengjum og öðrum körlum. Þarna er á ferð ævagömul ofbeldismenning sem sem þarf að kveða niður með öllum tiltækum ráðum. Það verður að stöðva ofbeldismennina. Það á enginn rétt á að níðast á annarri manneskju, andlega eða líkamlega. Það hjálpar ekki hve útbreidd klámnotkun drengja er en klámið niðurlægir og afmennskar bæði konur og karla. Það er því mikið verk að vinna við að fræða almenning, mennta fagstéttir, verja börnin, tryggja öryggi brotaþola og fá ofbeldismenn til að fara í meðferð. Markmiðið hlýtur að vera samfélag án kynbundins ofbeldis.




Skoðun

Sjá meira


×