Skoðun

Ritstjóri á flugi

Ingimundur Bergmann skrifar
Í gein í Fréttablaðinu þann 23. nóvember sl. tekur ritstjóri blaðsins málefni íslenskrar kjúklingaframleiðslu og innflutning á kjúklingakjöti til umfjöllunar. Margt er þar ofsagt og sumt er ekki rétt með farið.

Ólafur Stephensen byrjar grein sína á fullyrðingu um að íslenskir kjúklingaframleiðendur hafi breytt afstöðu sinni til innflutnings á kjúklingakjöti. Hið rétta er að þeir hafa ekki haft neitt með það að gera. Um það var samið á sínum tíma að leyfður yrði innflutningur til landsins á ýmsu kjöti og þar á meðal kjúklingum, til að liðka fyrir að tollar á útflutt íslenskt lambakjöt yrðu felldir niður.

Seinna í greininni setur Ólafur fram þessa fullyrðingu:

„Samt gilda strangari reglur um innfluttan kjúkling en innlendan.“

Hafi Ólafur kynnt sér málið, veit hann að fullyrðingin er röng. Kröfur sem gerðar eru til heilbrigðis erlendra kjúklinga eru til þess að þeir komist nær því að uppfylla sömu kröfur og gerðar eru til innlendrar framleiðslu.

Ólafur lýsir yfir mikilli ánægju með að gerðar séu ríkar kröfur um að íslenskir kjúklingar séu lausir við salmonellu. Það kemur skemmtilega á óvart, því greinin gengur að öðru leyti út á að sýna fram á hve nauðsynlegt það sé að heimilaður verði hömlulaus innflutningur á kjúklingakjöti, sem gera verður ráð fyrir að Ólafur viti vel að ekki eru gerðar kröfur um að uppfylli heilbrigðiskröfur í sama mæli og gert er hérlendis. Hvort hinar íslensku kröfur séu réttar og eðlilegar og hvort og hvernig þeim er framfylgt, er hins vegar mál sem hafa má ýmsar skoðanir á.

Heilnæm neysluvara

Er til að mynda rétt að urða allt kjúklingakjöt sem salmonella hefur borist í? Ólafur bendir réttilega á að hægt sé að gera það að heilnæmri neysluvöru með þeirri einföldu aðferð m.a. að sjóða eða steikja kjötið. Íslendingar hafa valið þann kost að urða slíkt kjöt, líklega vegna þess að þeir telja sig öðrum þjóðum fremri í matvælaframleiðslu, en leitun er að þjóðum sem leyfa sér slíka sóun á verðmætum. Hitt er annað mál að seint verður lögð of mikil áhersla á að matvara á neytendamarkaði sé góð og heilbrigð, laus við óhollar örverur og lyfjaleifar. Íslenskir kjúklingabændur hafa náð að uppfylla þær kröfur með árangri sem þeir geta verið stoltir af, svo sem nýlegar rannsóknir sýna.

Ólafur veður elginn í greininni og lætur sem hann sé að fjalla um málefni sem hann viti allt um, en þegar að er gáð, kemur í ljós að umfjöllun hans gerir í raun ekki annað en upplýsa vanþekkingu, nema að skrifað sé gegn betri vitund. Satt að segja verður að telja það líklegra, því fram til þessa hefur Ólafur verið talinn vel upplýstur um það sem hann hefur valið sér að fjalla um.

Með góðum óskum til ritstjórans sem valdi þann kost að fljúga í átt til sólar og ósk um að hann fari þar ekki of nærri, með kunnum afleiðingum.




Skoðun

Sjá meira


×