Skoðun

Annars flokks sjúkdómur?

Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Gunnhildur Bragadóttir og Kristín I. Pálsdóttir og Þórlaug Sveinsdóttir skrifa
Rótin er félag um málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda og eitt af baráttumálum félagsins er að efla meðferðarúrræði fyrir konur. Félagið stefnir að því að komið verði á fót sérhæfðri meðferð fyrir konur þar sem tekið verður heildstætt á vanda þeirra m.a. hvað varðar úrvinnslu áfalla.

Rótin telur mikilvægt að lagaumhverfi og eftirlit með námi áfengis- og vímuefnaráðgjafa sé skýrt og að lögbundin námskrá fyrir námið sé gerð við fyrsta tækifæri. Við eftirgrennslan hefur komið í ljós að pottur er brotinn hvað varðar umgjörð um menntun fyrir áfengis- og vímuefnaráðgjafa. Engin námskrá er til og ekki er ljóst hvar ábyrgðin á náminu liggur, þ.e.a.s. hvort það heyrir undir menntamálaráðuneytið eða heilbrigðisráðuneytið. Einnig er óljóst hvaða kröfur eru gerðar til kennara í faginu.

Landlæknir gefur út starfsleyfi fyrir þá ráðgjafa sem lokið hafa námi sem landlæknir metur gilt. Örðugt er að sjá hvernig landlæknir á að geta metið nám gilt sem ekki hefur formlegri ramma en virðist raunin um nám áfengis- og vímuefnaráðgjafa.

Samkvæmt svari landlæknis við fyrirspurn frá Rótinni hefur embættið ekki gert tillögur um menntunina og hvernig henni skuli hagað, eins og mælt er fyrir um í reglugerð um námið, en að embættið telji nauðsynlegt að „endurskoða þær námskröfur sem gerðar eru til þessarar stéttar og taka þá mið af menntun sambærilegra stétta í nágrannalöndum okkar“. Jafnframt kemur fram að sú vinna sé ekki farin af stað.

Fjölþættur vandi

Rótin hvetur þá sem koma að þessum málaflokki til að sýna jafnmikinn metnað á sviði lækninga fyrir áfengis- og vímuefnasjúklinga og aðra sjúklinga í landinu. Áfengis- og vímuefnafíkn er flókinn og margþættur vandi, eða eins og segir í klínískum leiðbeiningum Landlæknisembættisins um greiningu og meðhöndlun áfengisvanda í heilsugæslu: „Áfengisfíkn er heilkenni þar sem saman fara sálræn, líkamleg og atferlisleg einkenni.“

Hluti af þessum fjölþætta vanda er að gríðarlega hátt hlutfall kvenna sem kemur til meðferðar hefur orðið fyrir ofbeldi. Með hliðsjón af framansögðu teljum við nauðsynlegt að heilbrigðisstarfsmenn sem starfa á meðferðarstofnunum fái menntun um ofbeldi í sínu grunnnámi og að gangskör sé gerð að því að menntun áfengis- og vímuefnaráðgjafa verði bætt og færð inn í 21. öldina. Áfengis- og vímuefnavandi er ekki annars flokks sjúkdómur.

Af þessu tilefni hefur Rótin sent ráðherrum mennta- og heilbrigðismála bréf og óskað eftir svörum við eftirfarandi spurningum:

1. Hvaða skólastigi tilheyrir nám áfengis- og vímuefnaráðgjafa, framhaldsskóla eða framhaldsfræðslu? Heyrir námið undir heilbrigðis- eða menntamálaráðuneyti eða er það á sameiginlegri ábyrgð ráðuneytanna?

2. Er endurskoðun á námi ráðgjafa hafin?

3. Stendur til að fara að tilmælum úr áðurnefndri skýrslu velferðarráðherra um að fræðsla um ofbeldi verði hluti af námi ráðgjafa?

4. Hvaða kröfur eru gerðar til kennara áfengis- og vímuefnaráðgjafa?

5. Stendur til að koma á fót námi í áfengis- og fíkniráðgjöf á háskólastigi?




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×