Skoðun

Sóun orkuauðlinda

Ólafur Teitur Guðnason skrifar
Jón Steinsson, dósent í hagfræði, hélt því nýverið fram í netpistli að aukin orkusala til álvera, fremur en um sæstreng fyrir fjórfalt hærra verð, fæli í sér sóun á orkuauðlindum þjóðarinnar. Af því að Jón beinir spjótum að orkusölu til álframleiðslu tel ég rétt að vekja athygli á tveimur atriðum, án þess að hér verði lagt nokkurt mat á fýsileika sæstrengs.

Fyrra atriðið er býsna augljóst en virðist þó þurfa að minna á, nefnilega að viðskiptavinurinn sem Jón vill snúa sér til, sæstrengurinn, er ekki til. Landsvirkjun telur að hann komi varla til sögunnar fyrr en eftir tíu ár eða svo, reynist yfirleitt fýsilegt að leggja hann, fáist erlendir aðilar til að fjármagna hann og aðrir óvissuþættir gangi upp.

Það væri dýrt að slá arðbær verkefni út af borðinu í heilan áratug á meðan þetta er athugað. Á meðan færi óvirkjað aflið í súginn sem töpuð tækifæri – glataður arður – því hér gildir vitaskuld annað en um endanlegar auðlindir á borð við námur eða olíulindir, sem alla jafna kostar ekkert að geyma til síðari tíma. Þennan fórnarkostnað, hinn tapaða arð, þyrfti Jón að taka með í reikninginn, það er ef það væri rétt hjá honum að valið stæði á milli sæstrengs og áliðnaðar. En svo er ekki.

Hér komum við nefnilega að síðara atriðinu sem bent skal á: Það má vel gera hvort tveggja. Á haustfundi Landsvirkjunar kom fram að ætla má að sæstrengur taki ekki til sín nema um 10 prósent af þeirri óvirkjuðu orku sem undir öðrum kringumstæðum yrði seld til iðnaðar. Með öðrum orðum: álver í dag er fjarri því að útiloka sæstreng seinna.

Rétt er að nefna að Jón dregur ekki í efa í grein sinni að aukin orkusala til áliðnaðar sé arðbær; hann telur aðeins að sæstrengur myndi gefa enn meira af sér (og vísar þar í ríkisstyrkt verð í Bretlandi). Hann lítur að vísu fram hjá því að álverin skiluðu þjóðarbúinu í fyrra litlum 60 milljörðum í gjaldeyristekjur af öðru en orkukaupum (það er með kaupum á annarri vöru og þjónustu, launagreiðslum og opinberum gjöldum) en látum duga hér að árétta að hann dregur ekki í efa að orkusalan sé arðbær þótt þessi ávinningur sé undanskilinn.

Tillaga Jóns er því sú, að gera ekki arðbæra orkusölusamninga í dag, heldur bíða og sjá hvort kannski megi gera enn betri samninga eftir áratug, um lítinn hluta orkunnar, enda þótt vel sé hægt að gera hvort tveggja.

Ég sé ekki betur en að þetta sé uppskrift að sóun.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×