Skoðun

Forseti Íslands og sæstrengur til Bretlands

Örn Helgason skrifar
Forseti Íslands hélt ræðu á orkuráðstefnu Bresk-íslenska viðskiptaráðsins og Bloomberg fréttaveitunnar í Lundúnum í síðastliðinni viku. Þar sagði hann m.a. „að Evrópubúar verði á næstu árum að gera upp við sig hvernig þeir ætli að nýta sér þá miklu hreinu orku sem finnist á norðurslóðum. Rafstrengur frá Íslandi til Bretlands sé mjög áhugaverður fjárfestingarkostur og hann segist verða var við mikinn áhuga fjárfesta.“

En hversu mikil er þessi orka? Á síðasta ári framleiddi Landsvirkjun alls um 12 Twst (terawattstundir, en orðið tera stendur fyrir milljón sinnum milljón). Drjúgur hluti orkunnar er þegar seldur í stóriðju eins og vel er þekkt. Samkvæmt ítarlegri vinnu í tengslum við rammaáætlun er talið að annað eins megi virkja þegar allt er talið. Hvernig hljómar þessi tala í tengslum við orkunotkun Evrópubúa? Á Bretlandi er árleg raforkunotkun um þessar mundir um 360 Twst. Þessi raforka er framleidd með kolum, olíu, gasi og einnig um 19% eða 70 Twst í kjarnorkuverum (14 alls). Nýjasta orkuverið af því tagi framleiðir árlega um 11 Twst! Ef horft er til fleiri Evrópulanda rýkur árleg notkun fljótt upp í 1000-2000 Twst. Borið saman við okkar 12 Twst (sem ekki eru enn í hendi) er erfitt að ætlast til að Evrópubúar rýni mikið til norðurs varðandi lausn sinna orkumála. Í raun má segja að „um þá miklu hreinu orku“ sem forsetinn vísar til, þá dugar hún nokkurn veginn til að fullnægja orkuþörfinni í Glasgow og nágrenni.

Orkan hrekkur skammt

Erfitt er að sjá hvað forsetinn er að fara þegar þessar tölur er bornar saman. Sem þjóð með rúmlega 300 þúsund íbúa erum við öfundsverð hvað orku varðar, en hún hrekkur skammt þegar kemur að þjóð með tugum milljónum íbúa.

Annað atriði sem forsetinn lagði mikla áherslu á í ræðu sinni er að fjárfesting í sæstreng milli Íslands og Bretlands sé mjög áhugaverður kostur. Vísaði hann þar til eigin vitneskju „um marga fjárfesta sem hefðu áhuga á að fjárfesta í sæstreng til langframa.“

Á undanförnum árum hafa forsvarsmenn Landvirkjunar fjallað um ýmsa kosti við hugsanlega tengingu á orkukerfi Landvirkjunar við dreifikerfin í Bretlandi og Evrópu um sæstreng. Þar hefur verið bent á samningsbundinn orkuútflutning, sölu á tímabundinni umframorku, sem oft er til staðar í kerfinu og víðtækari sölumöguleika, ef álverin taka að draga úr orkukaupum. Þá væri í vissum tilfellum einnig unnt að fá orku að utan ef þess þyrfti með. Bent hefur verið á jákvæða reynslu og hagkvæmni af samtengingu orkukerfa landa Vestur-Evrópu varðandi tilflutning orku milli álagsvæða.

Nánari athugun á þessum málum kom fram í skýrslu sem „ráðgjafarhópur um lagningu sæstrengs“ skilaði til atvinnumálaráðuneytisins í lok júní sl. Þar er tekið undir mörg almenn sjónarmið sem Landsvirkjun hefur bent á. Þar kemur einnig fram að strengur sem flutt gæti 6-9 teravattstundir til Bretlands gæti kostað 300-500 milljarða króna (ígildi tveggja til þriggja Kárahnjúkavirkjana). Til viðbótar þessu kæmi kostnaður við frekari orkuöflun til að auka hagkvæmni sæstrengsins. Þá er bent á, síðast en ekki síst, að enn sé svo margt óljóst varðandi lykilatriði sem hafa mikil áhrif á hagkvæmni verksins að rétt sé að flýta sér hægt og skoða mikilvæga þætti betur. Hér mætti einnig vísa í umfjöllun í grein sem Valdimar K. Jónsson og Skúli Jóhannsson skrifuðu í Fréttablaðið 31. október sl., en þar eru tíundaðir nánar ýmsir þættir tengdir þessu.

Hafandi kynnt sér ofangreind gögn með öllum þeim varnöglum sem þar eru slegnir, kemur mjög á óvart að hálfu ári síðar er blásið í lúðra á jafnafgerandi hátt og gert var í Lundúnum í síðustu viku. Er árið 2007 gengið í endurnýjaða lífdaga?




Skoðun

Sjá meira


×