Skoðun

Til hamingju með daginn, börn á öllum aldri!

Stefán Ingi Stefánsson skrifar
Í dag er afmælisdagur Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Á þessum degi fyrir 24 árum var hann samþykktur af Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Sáttmálinn endurspeglar byltingarkennda sýn á stöðu barna í samfélaginu og undirstrikar að tryggja beri öllum börnum umönnun og vernd.

Á Íslandi hefur staða barna tekið stakkaskiptum á þessum tæpa aldarfjórðungi. Íslensk stjórnvöld hófu þegar árið 1989 að efla réttindi barna í samræmi við anda Barnasáttmálans. Lagst hefur verið í ítarlega endurskoðun á íslenskum lögum til að tryggja að þau séu í fullu samræmi við sáttmálann, stofnað var embætti sérstaks umboðsmanns barna og þannig mætti áfram telja. Afar merkur áfangi náðist svo þegar Barnasáttmálinn var lögfestur 20. febrúar síðastliðinn með einróma samþykki Alþingis Íslendinga. Lögfestingin er skýr stefnuyfirlýsing um að hér á landi skuli forgangsraðað með hagsmuni barna að leiðarljósi.

Börn þurfa að þekkja réttindi sín

En þótt við höfum nú fagnað lögfestingu Barnasáttmálans er það eingöngu upphafið að löngu ferli. Ríkisvaldið þarf að móta stefnu sína varðandi innleiðingu sáttmálans og slíka áætlun þarf að vinna í samstarfi við sveitarfélög, opinberar stofnanir, frjáls félagasamtök og almenning. Tryggja þarf að Barnasáttmálinn verði lifandi skjal sem börn og fullorðnir þekkja og geta sett í samhengi við eigin raunveruleika. Börn á Íslandi þurfa að þekkja réttindi sín og geta verið í umhverfi þar sem þessi réttindi eru hluti af daglegu lífi. Við undirbúning þessa næsta skrefs gegnir umboðsmaður barna ómetanlegu hlutverki og verður mikilvægi þeirrar stofnunar fyrir börn og innleiðingu Barnasáttmálans seint ofmetið.

Á afmælisdegi Barnasáttmálans skulum við gleðjast og vera stolt af þeim árangri sem náðst hefur. Um leið skulum við hafa í huga að enn er mikið verk fyrir höndum til að tryggja að lögfesting sáttmálans hafi raunveruleg áhrif. Mótum landsáætlun um innleiðingu Barnasáttmálans, kynnum sáttmálann fyrir ungum sem öldnum, vinnum eftir athugasemdum Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna og höldum úti öflugu embætti umboðsmanns barna á Íslandi.

Kæru börn á öllum aldri, til hamingju með afmælið!




Skoðun

Sjá meira


×