Skoðun

Ferskir vindar og framtíð fyrir borgina

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir skrifar
Oft hefur verið þörf, en nú er nauðsyn. Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík þarf nýja nálgun til að ná kröftum sínum að nýju í borginni. Það þarf að velja fólk til forystu sem er tilbúið að líta á skipulag borgarinnar út frá frelsinu og sjálfstæðisstefnunni.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur að undanförnu ekki náð til borgarbúa eins vel og hann getur. Það er mikilvægt að rekstur borgarinnar verði endurskipulagður með hagsmuni borgarbúa að leiðarljósi. Reykvíkingar eru mismunandi og borgin hefur alla burði til að bjóða þeim upp á valkosti samkvæmt óskum og þörfum hvers og eins. Álögur á borgarbúa hafa nú hækkað stöðugt seinustu ár og það þarf því nauðsynlega að kjósa einstaklinga sem munu lækka skatta og gjöld í borginni, en ekki skuldsetja komandi kynslóðir.

Ég er viss um að Hildur Sverrisdóttir, sem býður sig fram í 1. sæti, hafi það sem þarf til að leiða Sjálfstæðisflokkinn í borginni. Hún mun koma með ferska vinda í flokkinn með hugsjónum sínum og það er einmitt það sem flokkinn vantar sárlega í Reykjavík.

Hildur hefur rætt á einfaldan hátt um mikilvægi þess að fara vel með skattpeninga borgarbúa og hún hefur nálgast hvert málið á fætur öðru frá hugsjónum sjálfstæðisstefnunnar. Það er alltof sjaldan sem við heyrum fólk tala skýrt um mikilvægi þess að fara vel með þá peninga sem borgin hefur frá okkur borgarbúum.

Það þarf hugrekki til að styðja við góð mál og vera á móti vondum sama hvaðan þau koma og það þarf traust til að standa með sjálfstæðisstefnunni í öllum málum. Ég veit að Hildur er hugrökk og traustur leiðtogi sem fylgir alltaf sinni sannfæringu.

Við þurfum að hugsa til framtíðar fyrir Reykjavík og það gerum við best með Hildi Sverrisdóttur í broddi fylkingar, þess vegna mun ég setja hana í 1.sæti í prófkjörinu á laugardaginn og ég hvet þig til að gera slíkt hið sama.



Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, laganemi




Skoðun

Sjá meira


×