Skoðun

Ég fékk inngöngu!

Bryngeir Valdimarsson skrifar
Það er svo mikil aðsókn í kennaranám að háskólinn þurfti að grípa til inntökuprófa. Það er alveg skiljanlegt. Er það ekki?

Kennari fær að vinna með framtíðina, ef svo má að orði komast. Kennari fær að móta kennara, lögfræðinga, fjölmiðlafræðinga, stjórnendur og jafnvel forseta framtíðarinnar. Kennari hefur þau forréttindi að fá að sinna einu mest gefandi starfi sem völ er á. Þetta starf hefur allt. Skemmtilegt, fjölbreytt og gefandi starf sem er vel borgað.

Félagi minn fór í hagfræði. Ég skil það ekki hjá honum. Hann er BARA að fara að vinna með tölur og einhver línurit … og allt fyrir launum sem varla duga til að reka bíl á mánuði. Hann hlýtur að hafa virkilega gaman af þessu. Svo hlýtur hann að eiga maka sem er hjúkrunarfræðingur, kennari, félagsráðgjafi eða eitthvað slíkt. Það getur ekki annað verið. Hvernig ætlar hann annars að lifa á þessu?

Við þessa spurningu vaknaði ég! Þvílíkur draumur. Ég náði áttum fljótlega og mundi að ég er í kennaranámi. Ég valdi að fara í kennaranámið út af starfinu, ekki út af laununum. Ég valdi að stefna á þennan starfsvettvang. Þegar út á vinnumarkaðinn er komið veit ég eiginlega ekki hvernig ég á að reka bílinn eins og félagi minn í draumnum mínum.

Ætli ég þurfi ekki að taka að mér aukastörf sem taka þá tíma frá fjölskyldu minni?

Verð ég kannski að vinna við eitthvað annað?

Á ég að eltast við draumastarfið mitt EÐA peningana til að framfleyta mér og mínum?



Eru þetta spurningar sem kennarar standa frammi fyrir í dag?

Það er eitthvað sem þarf að laga … Það þarf að rétta þessa dæld í þjóðfélaginu!

Ertu sammála?

Lækið og sjerið!




Skoðun

Sjá meira


×