Skoðun

Menntun er kjaramál

Ólafía B. Rafnsdóttir skrifar
Starfsmenntamálin eru ofarlega á lista áherslna VR í þeim kjaraviðræðum sem nú standa yfir og er í kröfugerð VR og Landssambands ísl. verzlunarmanna (LÍV) sérstaklega fjallað um menntun starfsmanna í verslun og þjónustu. Á nýafstöðnu þingi LÍV var samþykkt ályktun þar sem áherslur í menntamálum eru áréttaðar og atvinnurekendur hvattir til að standa með okkur að því að auka og efla starfsmenntun í landinu.

Af hverju starfsmenntamálin?

Rúmlega helmingur félagsmanna VR sótti menntun, fræðslu eða þjálfun af einhverju tagi á árinu 2012, samkvæmt launakönnun VR. Það er mjög ánægjulegt. Það er hins vegar áhyggjuefni að í versluninni er þetta hlutfall lægra, eða 37%, á meðan það er mun hærra hjá fyrirtækjum í sérhæfðri þjónustu og fjármálageira eða yfir 60%.

Í nýlegri vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar kemur fram að nær þriðjungur fólks á aldrinum 25-64 ára er ekki með framhaldsmenntun. Í verslun og ferðaþjónustu er þetta hlutfall umtalsvert hærra eða um 48%, að mati Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, að því er fram kemur í rannsókn sem unnin var á vegum Rannsóknarseturs verslunarinnar.

Þrátt fyrir mikið framboð af námi fyrir starfsfólk í verslun og þjónustu er enn þörf fyrir meiri menntun. Fjórir af hverjum tíu svarendum í könnun VR sögðust hafa mikla þörf fyrir frekari þjálfun eða viðbótarfræðslu í tengslum við starf sitt. Og því miður er aðsókn ekki nógu góð í sérhæft nám fyrir verslunarfólk – unga fólkið leggur námið ekki fyrir sig og lítur ekki á starfið sem framtíðarstarf.

Og síðast en ekki síst, starfsfólk vantar hvatann til að afla sér meiri menntunar. Mikið námsframboð hefur lítið að segja ef enginn nýtir það. VR gerði í sumar könnun meðal félagsmanna þar sem m.a. var spurt um starfsmenntamálin. Þegar spurt var um hvatann fyrir frekara námi voru niðurstöðurnar býsna afgerandi; flestir nefndu örugga launahækkun að námi loknu sem og tækifæri til starfsþróunar eða stöðuhækkunar. Atvinnulífið verður að sýna í verki að það vilji menntað starfsfólk til starfa. Og starfsmenn verða að sjá það í launaumslaginu sínu að menntunin borgi sig.

Markmið okkar er einfalt: við viljum hefja störf í verslun og þjónustu til vegs og virðingar og gera þau að eftirsóknarverðum valkosti fyrir unga fólkið. Það gerum við með því að auðvelda aðgengi að markvissu og skilvirku námi og tryggja að námið skili áþreifanlegum ávinningi – bæði í formi launa og starfsþróunar.

Hverju viljum við ná fram?

Það bendir margt til þess að stéttarfélög og atvinnurekendur geri með sér stuttan kjarasamning sem undanfara að lengri og viðameiri samningi. Á þingi LÍV samþykktu þingfulltrúar þessa nálgun, eins og fram kemur í kjaramálaályktun þingsins sem birt er á heimasíðu VR. Kjarasamningaviðræður eru vettvangur samskipta milli atvinnulífsins og stéttarfélaganna og við teljum mikilvægt að starfsmenntamálin fái þá athygli sem þeim ber við samningaborðið, hvort sem samið verður til lengri eða skemmri tíma. Við gerum þá kröfu að áherslur félagsins í þessum málaflokki fái inni í bókun í næstu kjarasamningum.

Í fyrsta lagi gerum við þá kröfu að fulltrúar atvinnulífsins, í samstarfi við menntamálayfirvöld, sammælist um að ljúka vinnu við að skilgreina starfsmenntun fyrir starfsfólk í verslunar- og þjónustugreinum með námslokum sem verða metin til launa.

Í öðru lagi leggjum við áherslu á samfellt nám á framhaldsskólastigi fyrir starfsfólk í verslunar- og þjónustugreinum.

Og í þriðja lagi viljum við að áhersla verði lögð á að starfsfólk með stutta formlega menntun fái tækifæri til þess að fá reynslu sína metna í raunfærnimati.

Atvinnulífið og stéttarfélögin verða að fylgja því fast eftir að nýjar áherslur í starfsmenntamálum fái þann stuðning sem til þarf, orð mega sín lítils ef þeim fylgja ekki aðgerðir. VR samþykkti fyrir nokkrum árum menntastefnu þar sem áhersla er lögð á að menntun sé hagsmunamál allra á vinnumarkaði – félagsmanna og atvinnurekenda. Aukin menntun eykur ekki eingöngu verðmætasköpun heldur bætir lífsgæði einstaklinganna. Það er, þegar upp er staðið, helsta ástæða þess að við leggjum mikla áherslu á starfsmenntamálin.




Skoðun

Sjá meira


×