Skoðun

Úlfshjarta

Guðrún G. Sveinbjörnsdóttir skrifar
Lestrarvenjur unglinga hafa verið töluvert í umræðunni undanfarið og kannanir sýna að mikill hluti þeirra les ekki bækur sér til ánægju. Í starfi mínu sem íslenskukennari hefur mér fundist framboð bóka sem höfða til þessa mikilvæga lesendahóps oft á tíðum hafa verið takmarkað. Þess vegna langar mig að vekja athygli á bókinni Úlfshjarta eftir Stefán Mána sem kom út á þessu ári.

Úlfshjarta er tvímælalaust kærkomin viðbót við þær bókmenntir sem lesnar hafa verið í gegnum tíðina á efsta stigi grunnskóla og í framhaldsskólum. Úlfshjarta er skrifuð fyrir ungmenni (young adults) og efnistök höfundar eiga fullt erindi við markhópinn sem bókin er ætluð. Aðalsögupersónan er 19 ára strákur sem þarf að læra að lifa með afar sérstökum persónueinkennum. Sagan er í senn ástar-, spennu- og ævintýrasaga, þar sem tekin eru til umfjöllunar ýmis málefni sem fólk almennt glímir við á lífsleiðinni.

Sem dæmi um viðfangsefni má nefna glæpi og ofbeldi af ýmsu tagi, áfengis- og vímuefnaneyslu, sjálfsmynd og þá þætti sem móta hana, samskipti foreldra og barna og tilfinningar af ýmsu tagi. Bókin höfðar jafnt til stráka og stelpna og ég mæli hiklaust með henni til bókmenntakennslu, einkum ef eftirfarandi tilvitnun úr Aðalnámskrá grunnskóla er höfð að leiðarljósi:

„Þannig getur bókmenntakennsla í skólum stuðlað að sterkari sjálfsmynd nemenda og kennt þeim umburðarlyndi í garð ólíkra menningarsamfélaga og minnihlutahópa.“

(Aðalnámskrá, 2013, bls. 99)




Skoðun

Sjá meira


×