Skoðun

Horfðu á boltann

Borgar Þór Einarsson skrifar
Þegar pólitísk umræða verður óvægin og persónuleg er stundum talað um að farið sé í manninn en ekki boltann. Með því er átt við að umræðan snúist ekki um málefnin og það þykir sjaldnast gott.

Samt er það svo að stjórnmálamenn leggja mjög mikið upp úr því að umræðan snúist um þá persónulega - að minnsta kosti stundum. Þetta á einkum við í prófkjörum. Fyrir prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík að þessu sinni fer jafnvel meira fyrir fréttum af því hverjir voru hvar og í hverju þeir voru en hvað þeir sögðu.

Þá eru stuðningsmenn einstakra frambjóðenda ófeimnir við að viðra einkunnagjöf sína um mannkosti viðkomandi. Allt er þetta eðlilegt og hafið yfir gagnrýni, leikmaðurinn skiptir jú máli ekki síður en boltinn. Eða hvað? Hvort skiptir meira máli í pólitík, menn eða málefni? Ég veit ekki betur en að kröfur séu sífellt að aukast um persónukjör og ef horft er yfir sviðið í prófkjörum og kosningum verður ekki betur séð en þar snúist mest allt um leikmanninn en ekki boltann.

Mig langar þess vegna að brjóta blað og tala um boltann og meðferð hans hjá leikmanni sem ég þekki lítið sem ekkert. Ungur maður býður fram krafta sína í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, hann heitir Björn Jón Bragason. Ég hef ekki haft af honum nein kynni að ráði en hef þó á síðustu misserum fylgst með honum kynna hugmyndir sínar um málefni Reykjavíkurborgar.

Hann hefur hvergi slegið af í þeim efnum og framsetning hans á því sem hann vill gera fái hann til þess umboð ber öll merki þess að á bak við liggi mikil vinna og undirbúningur. Hugmyndir um byggð á eyjunum við sundin, sem studdar eru gögnum og rannsóknum, eru mjög athyglisverðar og það sama má segja um hugmyndir Björns um ódýrara húsnæði í borginni. Björn Jón hefur þar fyrir utan sett fram hugmyndir um bæta veðurfar í höfuðborginni með stórfelldri skógrækt í Esjuhlíðum.

Óhætt er að segja að þar hafi hann skilið aðra frambjóðendur eftir í reyknum þegar kemur að frumlegri hugsun.

Þessar hugmyndir, og kannski ekki síður framsetning þeirra og sá undirbúningur sem augljóslega liggur þeim til grundvallar, gera Björn Jón að góðum kosti á lista sjálfstæðismanna fyrir komandi borgarstjórnarkosningar. Ég veit lítið um manninn en í þetta skiptið ætla ég að hugsa meira um boltann en manninn - og brýt ég þar með einnig blað á mínum eigin knattspyrnuferli.




Skoðun

Sjá meira


×