Viðskipti innlent

Selja eignarhlut fyrir um 9,8 milljarða króna

Haraldur Guðmundsson skrifar
Sala á 32 prósenta eignarhlut í HB Granda hf. á samkvæmt tilkynningu félagsins að stuðla að dreifðara eignarhaldi og auka seljanleika hlutabréfa.
Sala á 32 prósenta eignarhlut í HB Granda hf. á samkvæmt tilkynningu félagsins að stuðla að dreifðara eignarhaldi og auka seljanleika hlutabréfa. Fréttablaðið/GVA.
„Verð á hlutum í HB Granda mun að öllum líkindum hækka töluvert í kjölfar þessarar ákvörðunar,“ segir Kristján Markús Bragason, umsjónarmaður hlutabréfagreiningar Íslandsbanka.

Hann vísar þar í fyriráætlanir stærstu eigenda HB Granda hf. um að selja allt að 32 prósenta eignarhlut sinn í félaginu áður en það verður tekið til skráningar á Aðalmarkaði Kauphallar Íslands á næsta ári.

Arion Banki á um 33 prósent af hlutafé HB Granda og ætlar að selja um 20-25 prósenta hlut í félaginu á næstu mánuðum. 

Aðrir stórir eigendur sem ætla að selja hluta af sinni eign eru Fiskveiðihlutafélagið Venus hf. og Vogun hf. 

Fiskveiðihlutafélagið Venus hf. er að stærstum hluta í eigu Kristjáns Loftssonar, forstjóra Hvals hf. og stjórnarformanns HB Granda, Birnu Loftsdóttur og Sigríðar Vilhjálmsdóttur. Félagið á 3,42 prósenta hlut í HB Granda og 39,5 prósenta hlut í Hval hf. 

Vogun hf. er dótturfélag Hvals og á 40,31 prósent hlut í HB Granda og 37,9 prósenta hlut í Hampiðjunni, sem á svo aftur 9,43 prósenta hlut í HB Granda. 

Útgerðarfyrirtækið er nú skráð á First North-markaði Kauphallarinnar þar sem viðskipti með hluti HB Granda hafa verið takmörkuð. Markaðsvirði félagsins, samkvæmt skráðu gengi á First North, er um 30,7 milljarðar króna. Sala á 32 prósenta eignarhlut myndi því skila um 9,8 milljörðum króna.

„Verðmyndun á First North er ekki mjög virk og þar eru viðskipti lítil og strjál. Skráð gengi á markaðinum þarf því ekki að endurspegla rétta mynd af því hvert verðmæti eigin fjár félagsins yrði væri það skráð á Aðalmarkaðinum. Það að taka félagið af First North og setja það á Aðalmarkaðinn mun því vafalítið hafa aukningu í för með sér þegar kemur að verðmæti eigin fjár félagsins,“ segir Kristján og heldur áfram:

„Manni finnst sérstakt að það sé ekki eitt einasta sjávarútvegsfyrirtæki skráð á Aðalmarkaðinum þar sem þetta er stærsta atvinnugrein okkar þegar kemur að gjaldeyrissköpun þjóðarbúsins.“








Fleiri fréttir

Sjá meira


×