Viðskipti innlent

Viðskiptakjör landsins ekki verri síðan 1964

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, kynnir Peningamál, efnahagsrit bankans.
Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, kynnir Peningamál, efnahagsrit bankans. Fréttablaðið/Daníel
Viðskiptakjör inn- og útflutnings Íslands eru í sögulegu lágmarki og ráð gert fyrir áframhaldandi rýrnun þeirra á næstu ár. „Aðallega vegna lægra sjávarafurðaverðs,“ segir Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans. Hann kynnti þjóðhagsspá bankans á fundi í Seðlabankanum í gær.

„Viðskiptakjörin hafa verið okkur afar óhagstæð og hafa nú rýrnað um 17 prósent frá árinu 2007,“ sagði Þórarinn og kvað kjörin ekki hafa verið jafnslæm síðan 1964. „Eftir að efnahagskreppan skall á núna fyrir nokkrum árum þá hafa þau nánast samfellt verið að rýrna.“

Í umfjöllun í Peningamálum kemur fram að í fyrra hafi viðskiptakjör landsins verið um sjö prósentum undir því sem þau hafa að meðaltali verið frá lokum seinni heimsstyrjaldar.

Bankinn gerir ráð fyrir að viðskiptakjör haldi áfram að rýrna á spátímabilinu sem nær til ársins 2016, og verði þá komin ellefu prósent undir langtímameðaltal. Rýrnunina megi fyrst og fremst rekja til slaks hagvaxtar í helstu viðskiptalöndum Íslands og mikillar lækkunar á verði sjávarafurða.

Þróun viðskiptakjara segir Þórarinn að skýri að nokkru leyti hvers vegna efnahagsbati hér hafi verið jafnhægur og raun ber vitni. Þróunin hafi grafið undan gengi krónunnar og gert úrlausn núverandi greiðslujafnaðarvanda erfiðari en ella.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×