Viðskipti innlent

Neytendur fá meiri gögn um kostnað

Haraldur Guðmundsson skrifar
Nú þurfa þeir sem óska eftir bílaláni að gera grein fyrir fjárhagsstöðu sinni.
Nú þurfa þeir sem óska eftir bílaláni að gera grein fyrir fjárhagsstöðu sinni. Fréttablaðið/GVA
„Lögin ganga út á að auka neytendavitund og vernd þeirra sem taka lán og í þeim tilgangi eru settar ýmsar nýjar kvaðir á lánveitendur varðandi upplýsingagjöf áður en lánin eru veitt,“ segir Jóna Björk Guðnadóttir, lögfræðingur hjá Samtökum fjármálafyrirtækja. Hún vísar þar til nýrra laga um neytendalán sem tóku gildi 1. nóvember síðastliðinn og ná meðal annars til íbúða- og bílalána, yfirdráttarheimilda, raðgreiðslusamninga og smálána.

Samkvæmt lögunum þurfa bankar og aðrir lánveitendur að veita ítarlegar upplýsingar um kostnað og skilmála þessara lána áður en þau eru veitt. Þannig á að auðvelda samanburð á mismunandi valkostum í neytendalánum.

„Lántakendur fá til að mynda eyðublöð þar sem eru settar fram ákveðnar upplýsingar á stöðluðu formi. Þar má nefna gildistíma samnings og heildarlántökukostnað. Þeir eiga einnig rétt á að fá samninginn í hendurnar eins og hann myndi á endanum líta út,“ segir Jóna.

Hún bendir einnig á að neytendur geti nú hætt við að taka lán og fallið frá samningi í allt að fjórtán daga eftir að lán er veitt.

„Á því tímabili má lánveitandi ekki krefjast svokallaðs uppgreiðslugjalds, sem hefur í vissum tilvikum verið innheimt þegar fólk kýs að greiða lán sín upp. Hins vegar þarf að greiða áfallna vexti og verðbætur og auðvitað lánið sjálft.“

Lögin fela einnig í sér aðrar breytingar frá fyrri lögum um neytendalán sem gera ekki eingöngu auknar kröfur til fjármálastofnana heldur einnig til neytenda. Þar á meðal er krafa um að lántakendur standist lánshæfismat, sem er byggt á viðskiptasögu og upplýsingum um vanskil, þegar einstaklingar sækja um lán undir tveimur milljónum króna eða þegar hjón eða fólk í sambúð óska eftir láni undir fjórum milljónum.

„Þegar neytendalán fara yfir tvær milljónir króna þarf að skila inn enn ítarlegri upplýsingum um fjárhagsstöðu. Það þýðir að fólk þarf nú að gangast undir ítarlegt greiðslumat ef það óskar eftir bílaláni upp á meira en tvær milljónir,“ segir Jóna að lokum.

haraldur@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×