Skoðun

Fögnum hinsegin flóttafólki

Anna Pála Sverrisdóttir og Hilmar Magnússon skrifar
Mannréttindasamtök í Íran telja að yfir 4.000 hommar og lesbíur hafi verið líflátin þar í landi frá því í klerkabyltingunni árið 1979. Sem sagt tekin af lífi af hinu opinbera fyrir að vera samkynhneigð. Lögbundnar dauðarefsingar tíðkast á fleiri stöðum í heiminum þótt ríkin séu sem betur fer fá.

Í fjölda annarra ríkja, þar með talið Afganistan, er það hins vegar refsivert með lögum að vera hinsegin og getur varðað þungum refsingum. En hinsegin fólk er ekki eingöngu beitt kúgun af hinu opinbera, líkt og í dæmunum að framan. Hinsegin fólk víða um heim verður nefnilega daglega fyrir ofbeldi ýmissa hópa og einstaklinga.

Þótt ofbeldið sé ekki á vegum ríkisins getur ríkisvaldið ýtt undir það með því til dæmis að taka ekki á þeim sem meiða og myrða – og þannig veitt þeim skotleyfi. Af þessum sökum þarf engan að undra að margt hinsegin fólk í heiminum sé á flótta. Það á einfaldlega ekki aðra kosti ef það vill halda lífi og limum.

Um málefni hinsegin flóttafólks var ýmislegt rætt á Evrópuráðstefnu hinsegin fólks sem undirrituð sóttu í Króatíu á dögunum. Fram kom að hinsegin fólk sem leitar hælis í öðrum ríkjum má iðulega sæta ömurlegri og niðurlægjandi meðferð þar sem það leitar hælis og er jafnvel svipt frelsi sínu.

Ítalía er eitt þeirra ríkja sem standa illa að málum, en þaðan kom nígeríski hælisleitandinn Martin til Íslands. Mál hans er nú til meðferðar eftir að hafa réttilega verið tekið upp á ný í innanríkisráðuneytinu. Frétt Sjónvarpsins frá 29. október sl. sýnir að Martin hefur vegna illrar meðferðar á hinsegin fólki í Nígeríu ríkar ástæður til að sækja um hæli hérlendis.

Hér í upphafi var minnst á Íran og Afganistan en það er einmitt þaðan sem íslensk stjórnvöld hafa nú ákveðið að taka á móti nokkrum flóttamönnum til landsins. Ástæðulaust er að útskýra í þaula hvers vegna við erum í sjöunda himni yfir þeirri ákvörðun. Þörfin er svo augljós. Um yrði að ræða fólk sem stundum er kallað kvótaflóttamenn, þ.e. ekki hælisleitendur heldur flóttafólk sem er valið til Íslands í samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna.

Aðstæður hinsegin fólks eru ekki fullkomnar hérlendis, en okkar samfélagi hefur þó fleygt hratt fram á undanförnum árum og af því mega Íslendingar vera stoltir. Við höfum því aðstæður til að geta boðið þeim skjól sem svo sárlega þurfa á að halda. Tillaga Eyglóar Harðardóttur félags- og húsnæðismálaráðherra um þessa ákvörðun var kærkomin nýbreytni og afar ánægjulegt að ríkisstjórnin hafi samþykkt hana. Fyrsta kastið verður ekki um marga einstaklinga að ræða en þeir verða vonandi fleiri.




Skoðun

Sjá meira


×