Skoðun

Afskiptaleysi er einbeitt pólitísk stefna

Pétur Ólafsson skrifar
Afskiptaleysi er alveg jafn afdráttarlaus stefna og aðgerðir. Afskiptaleysi ríkisstjórnarinnar í málefnum leigjenda er til dæmis mjög meðvituð ákvörðun. Í fjárlögum er ekki að sjá þess stað að boðað hafi verið til aðgerða á leigumarkaði. Á sama tíma hafa bæjaryfirvöld í Kópavogi ákveðið fyrir fyrri umræðu fjárhagsáætlunar að gera heldur ekkert í málefnum leigjenda á meðan Reykjavíkurborg hefur lagt fram áætlanir um fjölgun leiguíbúða um 3.000.

Frjáls markaður býr til vandann

Samfylkingin í Kópavogi hefur borið upp tillögur þess efnis að 250 milljónir verði notaðar til þess að reisa fjölbýlishús í samstarfi við leigufélög þar sem í væru íbúðir á almennum markaði og félagslegum. Þessi tillaga var felld í bæjarráði um miðjan október en atkvæði verða greidd um þá tillögu á fyrsta bæjarstjórnarfundi í nóvember. Þótt smíði þess mannvirkis myndi aldrei leysa þann mikla vanda sem hefur blasað við um nokkur misseri þá væri bæjarfélagið að leggja sitt lóð á vogarskálarnar til að fækka þeim sem þurfa að treysta á sína nánustu fyrir húsaskjól.

Að fella slíkar tillögur og lýsa þannig yfir áhuga- og afskiptaleysi í málefnum leigjenda er grafalvarlegt. Leiguverð hefur hækkað gríðarlega að undanförnu, eða um 10% á árinu samkvæmt nýjustu tölum Hagstofunnar.

Réttindi og skyldur leigjenda eru alls ekki tryggð og framboð á frjálsum markaði á verði sem endurspeglar veruleikann ekki neitt. Trygging leigjenda fyrir því að vera ekki sagt upp með stuttum fyrirvara er heldur engin. Þá verður ríkið einfaldlega, í nánu samstarfi við stærstu sveitarfélögin, að bregðast við. Sem betur fer hefur Reykjavíkurborg gert það með metnaðarfullum áætlunum um leiguíbúðamarkaðinn á næstu árum. Það á eftir að skipta miklu máli.

Hækkanir meiri en í Bretlandi

Það sem er svo móðgandi við afskiptaleysið sem ég ræddi í upphafi greinarinnar er að bæði ríkisstjórn og meirihlutinn í Kópavogi eru að segja að þeim sé sama um þann fjölda íbúa sem þarfnast húsaskjóls eða þau líta ekki á það sem sitt hlutverk að gera viðfangsefni þeirra að sínum. Það má líka orða þetta svona. Við ætlum ekkert að aðhafast á leigumarkaðnum vegna þess að málið er ekki nógu merkilegt.

Í Bretlandi hefur verð á leiguíbúðum hækkað um 9,3% á árinu. Blöðin linna ekki látum yfir að þvílíkt aðgerðarleysi einkenni stjórnina í Downing Street enda er stöðugleiki eitthvað sem ríkisstjórnir allra landa verða að leitast við að tryggja. Þessi gríðarlega hækkun á leigumarkaði er viðfangsefni stjórnvalda og sveitarfélaga, hvort sem um ræðir Ísland, Bretland, Kópavog eða Liverpool.

Meðvitað afskiptaleysi

Samkvæmt könnun BSRB um miðjan septembermánuð geta nú um 20% íbúa sem eiga íbúðir hugsað sér að færa sig yfir á leigumarkaðinn – verði búseta þeirra tryggð. Ég væri, til tilbreytingar, alveg til í að sjá meirihlutann í Kópavogi reyna að horfa til framtíðar og bregðast við yfirvofandi fjölgun á leigumarkaði. Nú þegar er þörfin mikil og mun án efa aukast til muna. Afskiptaleysi er einbeitt pólitísk stefna sem endurspeglar viðhorf Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Y-lista Kópavogsbúa. Hversu lengi þurfa leigjendur og aðstandendur þeirra að bíða eftir þessum stjórnmálaflokkum algers stefnuleysis?




Skoðun

Sjá meira


×