Skoðun

Reykjalundur fyrir þig og mig

Ragnheiður Ríkharðsdóttir skrifar
Flestir Íslendingar vilja standa vörð um rétt allra landsmanna til að njóta góðrar og öflugrar heilbrigðisþjónustu, óháð búsetu og efnahag. Heilbrigðiskerfið er mikilvægasti hlekkur velferðar og við erum sammála um að ríkisvaldið beri ábyrgð á fjármögnun heilbrigðisþjónustunnar. En við erum kannski ekki öll talsmenn þess að kosti fjölbreyttra rekstrarforma eigi að nýta til þess að ná árangri jafnt í þjónustu við fólkið og hagkvæmni í rekstri.

Á Reykjalundi í Mosfellsbæ er rekin stærsta endurhæfingarmiðstöð Íslands, endurhæfingarmiðstöð í eigu SÍBS, og tók hún til starfa árið 1945 og hefur verið rekin allar götur síðan. Þjónustusamningur um starfsemina er gerður við Sjúkratryggingar Íslands en meginbakhjarl starfseminnar hefur verið í gegnum tíðina Happdrætti SÍBS. En annar dyggur bakhjarl Reykjalundar í gegnum árin er Styrktar- og sjúkrasjóður verslunarmanna og félagar þar eru hvatamenn að stofnun hollvinasamtakanna.

Á Reykjalundi er rekin afar merkileg starfsemi sem er kannski ekki mörgum kunn utan þeirra sem þar hafa notið margvíslegrar þjónustu. Þar vinna um 200 manns í 160 stöðugildum og árlega njóta um 1.200 sjúklingar endurhæfingar í fjórar til átta vikur í senn og á göngudeild Reykjalundar koma fjögur til fimm þúsund manns á hverju ári, alls staðar að af landinu.

Á Reykjalundi hafa þúsundir einstaklinga náð heilsu á ný eftir áföll af ýmsu tagi og er meðalaldur þeirra sem þangað sækja einungis um fimmtíu ár. Starfsemin á Reykjalundi er í raun þjónusta í þína þágu á hvaða aldri sem þú ert. Því er það ljóst að Reykjalundur gegnir gífurlega mikilvægu samfélagshlutverki í endurhæfingu sem gerir einstaklingum kleift að komast aftur út á vinnumarkaðinn og verða virkir í samfélaginu á nýjan leik.

Að undanförnu hefur komið saman hópur fólks, m.a. þeir sem notið hafa endurhæfingar á Reykjalundi og aðrir velunnarar með hlýjar taugar til starfseminnar undir Helgafelli í Mosfellsbæ, til að undirbúa stofnun hollvinasamtaka Reykjalundar sem verða stofnuð formlega á hátíðarfundi að Reykjalundi laugardaginn 2. nóvember.

Ég ætla að verða hollvinur Reykjalundar og vona að það viljir þú líka.




Skoðun

Sjá meira


×