Skoðun

Segðu já við því að segja nei

Hvað gerir það að verkum að sumt fólk kemst hratt áfram með verkefni sín á meðan aðrir eru alltaf á fullu en áorka þó litlu? Sem manneskja með eigin rekstur þá er áskorun mín ítrekað þessi: Hvernig kem ég öllu í verk sem ég þarf og vil koma í verk? Þegar upp er staðið þá er sú tímastjórnunaraðferð sem hefur virkað hvað best fyrir mig það að segja ekki eins oft „já“.

Auðvelt að segja „já“

Þetta litla orð skiptir sköpum þegar kemur að því að virða tíma okkar og framlag til umheimsins. Það er nefnilega mjög auðvelt að segja „já“ en alls ekki svo auðvelt að segja „nei“. Við viljum ekki valda fólki vonbrigðum og viljum vera jákvæð og þjónustulunduð og eins viljum við segja já við tækifærum og viðskiptavinum. En hvað eru öll þessi „já“ að kosta okkur? Það sem eyðir tíma okkar og eykur streitu fremur en annað er endurtekin jákvæðni gagnvart því að gefa tíma okkar í að sinna málum sem annað fólk setur í forgang á meðan okkar eigin forgangsatriði sitja á hakanum.

Þegar þú ert beðinn um að gera eitthvað, gefðu þér tíma til þess að hugsa málið. Skoðaðu hvað mælir með og á móti því að segja já. Er þetta eitthvað sem er þér mögulegt, hefurðu tíma og geturðu sinnt því vel? Er þetta eitthvað sem færir þig nær eigin markmiðum eða tekur þig frá því sem þú ert að vinna að?

Segðu oftar „nei“

Það að segja „nei“ þýðir ekki að þú sért slæm manneskja, starfsmaður eða stjórnandi heldur að þú hafir önnur forgangsatriði og takmarkanir. Þegar einhver biður þig um eitthvað sem hentar þér ekki, íhugaðu þá hvort einhver annar gæti öðlast tækifæri á því að fá verkefnið og bjóddu jafnvel fram tillögur að því hvernig hægt væri að leysa verkefnið þó svo þú getir ekki sinnt því.

Þú þarft ekki að afsaka þig fyrir að gera það sem er réttast fyrir þig og þitt starf eða rekstur. Þegar þú gefur fólki „vinalegt“ nei með einfaldri útskýringu þá virðir fólk afstöðu þína og treystir þér í raun enn frekar þar sem þú ert með þín forgangsatriði á hreinu.

Prófaðu að segja oftar „nei“ við því sem hentar þér ekki og þú segir í leiðinni „já“ við því sem skiptir þig mestu máli, nýtir tíma þinn margfalt betur og eykur eigin afköst.




Skoðun

Sjá meira


×