Lífið

SÍBS fagnar 75 ára afmæli í Hörpu í dag

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Guðmundur Löve, framkvæmdastjóri SÍBS, fagnar afmælinu í Hörpu í dag.
Guðmundur Löve, framkvæmdastjóri SÍBS, fagnar afmælinu í Hörpu í dag.
„SÍBS hefur í gegnum 75 ára sögu félagsins bjargað þjóðinni frá ýmsum faröldrum, kom fyrst til aðstoðar berklasjúklingum en nú eru lífsstílssjúkdómarnir hættulegastir,“ segir Guðmundur Löve, framkvæmdastjóri SÍBS, sem fagnar 75 ára afmæli félagsins í dag í Norðurljósasal Hörpu klukkan 16.00.

Fyrir 75 árum stofnuðu berklasjúklingar með sér samtök, meðal annars með það að markmiði að hjálpa sjúklingum að ná fótfestu í lífinu eftir langa dvöl á heilsuhælum. Í kjölfarið urðu ýmsar stofnanir til eins og margir þekkja. Reykjalundur var stofnaður, SÍBS hafði forgöngu um stofnun Öryrkjabandalagsins, Múlalundur var stofnaður, SÍBS kom að stofnun HL-stöðvanna, Múlabæjar og Hlíðabæjar.

„Nú stöndum við frammi fyrir nýrri ógn sem eru svokallaðir lífsstílssjúkdómar en það eru sjúkdómar sem við getum haft áhrif á með því að breyta slæmum lífsvenjum eins og óhollu mataræði, lítilli hreyfingu, reykingum og óhóflegri áfengis- og vímuefnaneyslu,“ segir Guðmundur um vandamál samtímans. Þetta eru þeir sjúkdómar sem virðast verða algengari eftir því sem samfélög verða þróaðri og fólk lifir lengur.

Á þessum tímamótum horfir SÍBS hins vegar fram á við, og stuðlar að bættri heilsu almennings og heilbrigðari lífsstíl með forvörnum og upplýsingagjöf, auk þess að sinna endurhæfingu þeirra, sem hafa sökum veikinda, slysa, eða lífsstíls þurft að byggja sig upp á nýjan leik.

„Ein besta fjárfesting í mannauði felst í forvörnum. Ráðamenn vita hvað það kostar að vera með sjúkrahúsrúm eða pláss á hjúkrunarheimili. En hvað er hægt að spara mikið í heilbrigiðiskerfinu með forvörnum?“ spyr Guðmundur.

Ásamt því að fagna afmæli, verður á afmælishátíðinni kynnt útgáfa nýrrar bókar, Sigur lífsins, SÍBS í 75 ár 1938–2013, eftir Pétur Bjarnason. Bókin er í senn saga SÍBS og tengdra stofnana, en ekki síður mikilvægur hluti heilbrigðissögu þjóðarinnar á síðustu öld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.