Skoðun

Til valdhafa í borginni: Um fjárskort í leikskólum

Fanný Kristín Heimisdóttir skrifar
Í leikskólum borgarinnar höfum við 310 krónur á dag til að fæða hvert barn. Börnin fá daglega þrjár máltíðir og ávexti í millimál.

Leikskólastarfsfólk er í fríu fæði en það er ekkert fé áætlað til kaupa á mat fyrir starfsfólkið. Borgin rekur önnur mötuneyti fyrir starfsfólk sem greiðir einn þriðja hluta kostnaðarins sjálft og borgin tvo þriðju hluta á móti. Hér er um óskiljanlegan mismun að ræða.

Í fjárhagsáætlun sem nú er unnið að þarf að auka fé til matarkaupa í leikskólunum. Einnig þarf að auka við stöðugildi í leikskólaeldhúsum. Þar er svo skorið við nögl að ekki dugir til þegar bera á fram morgunverð, hádegisverð og síðdegishressingu, vinna mat frá grunni, sjá um þrif, gera skráningar vegna rekjanleika, þvo þvotta, skipuleggja matseðla og gera hagstæð og yfirveguð innkaup.

Um stöðugildi í leikskólaeldhúsum gilda hlutfallsreglur. Fjörutíu börn sem öll dvelja átta tíma á dag í leikskóla fá t.d. 86% stöðugildi í eldhúsið sitt en ekki er reiknað með stöðugildi í eldhús vegna starfsfólksins sem vinnur með börnunum. Hvernig er stöðugildi reiknað í mötuneytum þar sem engin börn eru nálæg?

Frá hruni hefur ekki verið bætt í vegna matarkostnaðar þó að staðfest sé með jöfnu millibili að matvara hækkar stöðugt í verði. Það nægir ekki að borgin geri hagstæða innkaupasamninga, súpan þynnist enn ef ekkert er að gert. Og því spyr ég ykkur valdhafa: Hafa foreldrar verið inntir eftir því hvort þeir vilji greiða hærri matargjöld? Hafið þið í hyggju að gera ráð fyrir mat leikskólastarfsfólks með fjárframlögum?

Góðuborgir og Betriborgir

Rúm tvö ár eru síðan allt lék á reiðiskjálfi vegna sameininga leikskóla. Við notum stundum grínheitið Góðaborg þegar vel gengur þó naumt sé skammtað. Nú þurfum við e.t.v. að bæta við orðaforðann, stigmagna grínið og fara að tala líka um Betriborg þegar um er að ræða pínulitlar einingar sem standa óhaggaðar. Það hefur nefnilega margvísleg margföldunaráhrif að starfrækja einn leikskóla í fleirum en einu húsi.

Það er umfangsmikið að þjónusta þrjú leikskólahús vel. Öll umsýsla er viðamikil og hætt við að starfsfólk, börn og foreldrar fái mismunandi þjónustu leikskólastjóra eftir því hvort hann starfar í einu tveggja deilda húsi eða tveimur til þremur húsum. Athugið einnig að leikskólastjórar gegna hlutverki húsvarðar og skrifstofufólk tíðkast ekki í leikskólum eins og í grunnskólum.

Það þarf að vinna heildræna stefnumörkun varðandi skóla borgarinnar og jafna fé og kröftum. Og ég spyr: Ætliði að hafa suma leikskóla tveggja deilda með sínum leikskólastjóra og aðra margra húsa með einum leikskólastjóra líka? Hvers vegna sjáiði þann kost vænlegan? Er húsvörður nauðsynlegri í sumum húsum en öðrum? Í hverju liggur sá munur?

Of lítið að gera?

Ég var um daginn spurð þessarar spurningar af embættismanni á skóla- og frístundasviði. Ég svaraði því til að ég hefði í einum leikskóla haft lítið að gera. Þar var stöðugt starf og vel mannað, allt í föstum skorðum. En þar var þó eins og alltaf í leikskóla of lítill undirbúningstími starfsfólks og of knappur samræmdur tími til skipulags. Við ætlum að hafa skólana lýðræðislegan vettvang og lýðræði krefst samræðu, það er þungt í vöfum, tekur tíma.

Eintal leikskólastjóra er ekki vænlegt til árangurs, starfsfólk þarf afleysingu vegna undirbúningstíma og samræmdan skipulagstíma. Nýlega var t.d. samþykkt læsisstefna fyrir leikskóla borgarinnar. Það er vel, en þegar formlegar ákvarðanir eru teknar um aukna framleiðni þarf um leið að reikna með tíma, orku, mannafla – því vilji er ekki allt sem þarf.

Mikilvægt hreyfiafl

Stundum er sagt að embættismenn eigi að gegna skyldum sínum sem slíkir, vinna inn á við og vera hlýðnir. En við höfum öll málfrelsi og þurfum að hafa lýðræðisleg samtöl þar sem margir fá að koma að. Við þurfum að hafa hjartað með í starfinu, finna nýjar leiðir sem henta nýjum tímum. Við viljum gegnsæi og réttlæti en andmælum þöggun.

Valdhafar fara með völd sem varða okkur á vettvangi leikskólans. Víst er að betur má ef duga skal og margvíslegra endurbóta þörf þar sem peningar koma til sem nauðsynlegt hreyfiafl. Getur verið að sú staðreynd, að börn og konur eru í meirihluta í leikskólunum, hafi þau áhrif að naumara er skammtað en í karllægari kerfum?




Skoðun

Sjá meira


×