Skoðun

Makrílsamningar munu færa milljarða

Guðjón Sigurbjartsson skrifar
Á meðan ósamið er um makrílveiðarnar við Evrópusambandið, Norðmenn og Rússa er tugum milljarða sóað árlega og stofninn ofveiddur.

Sóunin felst í því að veiða makrílinn á sumrin þegar hann er of feitur til að henta til fullvinnslu neytendavöru, en sú nýting gefur langmestan arð. Megnið af því sem við veiðum seljum við á um þrefalt lægra verði en fæst fyrir bestu vöru. Með því að semja við hlutaðeigandi þjóðir opnast á að við getum veitt makrílinn að vetrinum og selt hann á hæsta verði inn á Evrópumarkað.

Dæmi um verðmuninn er að árið 2012 fengum við hæst rúmar 600 kr. á kíló fyrir makríl til Hollands en obbinn af veiðinni var hins vegar seldur til Rússlands á aðeins 180 kr. á kíló 4). Hér er rúmlega þrefaldur munur. Ef öll veiðin undanfarin ár hefði verið seld á um 600 kr. kílóið hefðu tekjurnar orðið meira en hundrað milljörðum hærri en raunin varð þessi ár.

Það ætti að vera auðvelt að semja um veiðarnar við hinar strandveiðiþjóðirnar. Þær vilja allar vísindalega stjórnun veiða eins og við. Auðvelt er að reikna sanngjarnan hlut hverrar þjóðar út frá upplýsingum um hvar makríllinn heldur sig eftir árstímum og hversu mikla næringu hann tekur upp á hverju svæði. Þær upplýsingar liggja fyrir og þetta er rannsakað á ári hverju og breytingar milli ára liggja einnig fyrir.

Langt umfram ráðgjöf

Vesturstofn makríls sem við veiðum úr er talinn vera um 8,8 millj. tonn 2). Hann heldur sig að mestu í Norðursjónum, hafinu norður af Bretlandi og upp með Noregi og teygir sig hin síðari ár yfir til Íslands á sumrin, hversu lengi sem það nú stendur. Ráðlögð heildarveiði úr stofninum er um 550 þ. tonn á ári sem kann að aukast með aukinni dreifingu. Með auknum einhliða veiðum okkar og Færeyinga hafa verið veidd um 700 til 900 þ. tonn á ári, sem er langt umfram ráðgjöf vísindamanna.

Á Íslandsmiðum eru talin vera um 1,5 millj. tonna af makríl yfir sumartímann sem er um 17% stofnsins 3). Ætla má að af heildarfæðu makrílsins neyti stofninn um 8% hér. Við úthlutuðum okkur sjálf um 170 þús. tonna veiðikvóta í ár sem er um 30% af heildar ráðlagðri veiði en náum reyndar ekki að veiða nema um 123 þ. tonn í ár, 2013. Við getum ekki vænst þess að semja um svona mikla veiði.

Eðlilegur hlutur Íslendinga af makrílnum er á bilinu 8% til 17% miðað við fæðurökin. Ef millivegurinn er farinn og samið um 12% gerir það um 70 þús. tonn árlega m.v. ráðlagðan heildarkvóta en útlit er fyrir að auka megi hann verulega. En þessi afli mun gefa mun meira af sér en þau 120 þús. tonn sem við veiðum núna af því söluverðið verður um þrefalt hærra.

Annað þessu tengt er að við borgum 10% toll á fullunnar fiskafurðir inn á Evrópusambandssvæðið á meðan við stöndum utan ESB. Þetta heldur aftur af þróun fullvinnslu hér og dregur úr þjóðartekjum.

Hvert ár sem það dregst að semja um makrílinn töpum við mörgum milljörðum, göngum á makrílstofninn og völdum umhverfisskaða. Þar á ofan veldur það okkur skaða vegna neikvæðra viðbragða og jafnvel refsiaðgerða hlutaðeigandi þjóða.

1) https://skemman.is/stream/get/1946/3218/6935/1/Lokaverkefni_skil_7.pdf

2) https://www.atvinnuvegaraduneyti.is/media/Skyrslur/Makrilskyrsla-2012.pdf

3) https://www.hafro.is/images/frettir/2013/IESSNS_July-August_2013.pdf

4) https://www.hagstofa.is/Hagtolur/Sjavarutvegur-og-landbunadur










Skoðun

Sjá meira


×