Skoðun

Störukeppni?

Ólafur Loftsson skrifar
Ketill B. Magnússon, formaður Heimilis og skóla, skrifar 15. október grein í Fréttablaðið þar sem hann vekur athygli á því sem hann kallar hættu á „ófriði í skólum landsins“. Hann hvetur meðal annars grunnskólakennara og sveitarfélög til að endurnýja samninga sína án átaka. Þótt gleðilegt sé að finna stuðning foreldra í yfirstandandi kjaraviðræðum er nauðsynlegt að leiðrétta nokkur atriði.

Það er rétt að grunnskólakennarar hafa lýst yfir óánægju sinni með kjörin, enda hafa þau dregist aftur úr öðrum stéttum. Sem betur fer virðist vera ríkjandi skilningur á því í samfélaginu að þennan launamun verði að laga og gera laun grunnskólakennara samkeppnishæf og ekki lakari en stétta með sambærilegt háskólanám og ábyrgð. Það er því nauðsynlegt að leiðrétta launin og skapa sátt um kennarastarfið.

Eftir erfitt verkfall árið 2004 ákvað Félag grunnskólakennara að endurskoða aðferðafræði sína við gerð kjarasamninga. Í því skyni hefur félagið reglulega þjálfað samninganefnd sína í breyttum vinnubrögðum. Félagið hefur sótt upplýsingar og þjálfun víða að, meðal annars frá Harvard og MIT. Auðvitað er slíkt ekki ávísun á árangur – það þarf tvo til að semja. Ég fullyrði að samningaviðræður við sveitarfélögin af hálfu Félags grunnskólakennara eru mjög markvissar og í föstum skorðum. Að líkja kjaraviðræðum við störukeppni er afar óviðeigandi og ómálefnalegt.

Öll stéttarfélög á Íslandi geta í nauðvörn boðað til verkfalls. Það er ekki nokkur ástæða til að ala á ótta meðal foreldra við að grunnskólakennarar séu að fara í verkfall frekar en aðrir. Félag grunnskólakennara og Samband íslenskra sveitarfélaga hafa framlengt viðræðuáætlun sína til 28. febrúar 2014. Áður en menn fara að spá verkföllum er eðlilegt að samningsaðilar fái tækifæri til að ræða málin, fara yfir samningsmarkmið hvors annars og ná samkomulagi. Það verður ekki gert í fjölmiðlum heldur samkvæmt tímasettri aðgerðaáætlun sem aðilar hafa sett saman.

Það er einlæg von mín og markmið að ná eðlilegri og sanngjarnri leiðréttingu fyrir hönd grunnskólakennara í sátt við sveitarfélögin. Þannig er hagsmunum allra aðila best borgið, kennara, sveitarfélaga, foreldra og síðast en ekki síst nemenda.




Skoðun

Sjá meira


×