Innlent

Krabbameinssjúklingar bíða vikum saman eftir fyrsta viðtali hjá lækni

Haraldur Guðmundsson skrifar
Á lyflækningadeild krabbameina sinna fjórir læknar starfi sem átta sinntu áður segir Tómas Guðbjartsson yfirlæknir og prófessor í skurðlækningum á Landspítalanum.
Á lyflækningadeild krabbameina sinna fjórir læknar starfi sem átta sinntu áður segir Tómas Guðbjartsson yfirlæknir og prófessor í skurðlækningum á Landspítalanum.
„Ástandið á spítalanum hefur ekki verið jafn alvarlegt síðustu fjóra áratugi,“ segir Tómas Guðbjartsson, yfirlæknir og prófessor í skurðlækningum á Landspítalanum.

Tómas og þrjátíu aðrir læknar úr prófessoraráði Landspítalans skrifa í dag grein í Fréttablaðið þar sem þeir greina frá þeirri alvarlegu stöðu sem upp er komin á ýmsum lykildeildum spítalans og rekja hana til fjárskorts. Þar lýsa læknarnir meðal annars mikilli manneklu á lyflækningasviði spítalans.

„Ástandið á lyflækningadeild krabbameina er til dæmis grafalvarlegt því þar sinna einungis fjórir læknar störfum sem átta sinntu áður. Einum af þessum fjórum læknum hefur borist atvinnutilboð frá Bandaríkjunum og læknirinn er nú að íhuga sína stöðu,“ segir Tómas.

Hann nefnir einnig að bið eftir fyrsta viðtali við krabbameinslækni geti nú verið allt að þrjár til fjórar vikur.

„Þetta er sú staða sem krabbameinssjúklingar á Íslandi þurfa nú að búa við og núverandi ástand er ekki til þess fallið að slá á þann kvíða sem fylgir því að greinast með illkynja sjúkdóm,“ segir Tómas.

Í grein læknanna er einnig sagt frá því að hluti tækjabúnaður spítalans sé orðinn úreltur og að starfsmenn hans hafi í sparnaðarskyni þurft að kaupa varahluti í gömul tæki á netinu.

„Við höfum algjörlega vanrækt þennan hluta starfseminnar og sum bráðnauðsynleg tæki eru einfaldlega ekki til á spítalanum. Önnur eru úrelt og síbilandi,“ segir Tómas og nefnir sem dæmi að æðaþræðingartæki spítalans sé orðið fjórtan ára gamalt.

„Með þessum skrifum okkar viljum við á engan hátt vekja ótta hjá sjúklingum. Við erum aftur á móti komnir að þeim tímapunkti að þurfa að greina frá stöðunni eins og hún raunverulega er því stjórnmálamenn virðast ekki trúa því að ástandið sé svona,“ segir Tómas.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×