Skoðun

Afi minn er rosalega gamall en hann er samt ekki dauður

Rut Indriðadóttir skrifar
„Afi minn er rosalega gamall en hann er samt ekki dauður“ segir nemandi á yngsta stigi við mig. Þetta er einstakur nemandi með sérþarfir. Honum líður illa í stórum hópi þar sem áreiti er mikið. En hann er áhugasamur, frjór og glaður þegar hann kemst í námsaðstæður sem henta honum. Í lítinn hóp þar sem hann er öruggur og í nánu sambandi við kennara. Það er mikilvægt að geta gefið honum tíma, athygli og næði. Það sem þessum nemanda er efst í huga þessa stundina er afi hans sem er svo gamall að hann er næstum 100 ára. Þó ég hafi undirbúið kennslulotuna eru hugrenningar nemandans um afa hér með orðnar grunnur að viðfangsefni okkar.

Þó heyri ég sagt að kennsluaðferðir í grunnskólanum séu einhæfar og bókamiðaðar og að stærð námshópa skipti ekki máli.

Þar sem mörg börn eru saman komin reynir á samskipti og vitanlega kemur eitt og annað upp. Góð samskipti við heimilin eru allra hluta mikilvæg, ekki síst ef ágreiningur kemur upp milli nemenda eða foreldra. Mikill tími fer í að rækta gott samband við heimilin. Margir nemendur eiga tvö heimili og ekki ríkir alltaf eining milli heimila um málefni nemanda. Þá þarf kennarinn að vanda sig og stíga varlega til jarðar. Og getur þú, lesandi góður, ímyndað þér hve vandasamt það er fyrir umsjónarkennara að eiga í góðum samskiptum við foreldra allra aðila, meints geranda og þolanda, ef upp koma eineltismál eða ósætti í samskiptum?

Ég heyri þó oft fullyrt að kennarar nenni ekki að taka á ágreiningsmálum eða vera í samskiptum við heimili.

Lítil stúlka með kvíða mætir hágrátandi til mín í fyrstu lotu að morgni. Hún er með ekka og getur ekki tjáð mér hvað á bjátar. Ég sest og tek hana í fangið. Á meðan streyma nemendur inn sem einnig vilja ólmir ná sambandi við mig. Erindin eru af ýmsum toga en þó öll mikilvæg. Einn er búinn að missa tönn, hjá öðrum er mamma á spítala, nokkrir eru að skipta um heimili í dag og hjá einum fór pabbi að heiman í gær. Þegar mér tekst að róa og hugga stúlkuna í fangi mínu kemur í ljós að það sem veldur henni svo miklum óróleika er að vinkona hennar er veik og því ekki í skólanum í dag. Við því verð ég að bregðast strax og koma á sambandi við annan félaga svo hún finni öryggi og traust. Ég þarf einnig að hlusta á hin börnin og bregðast við því sem á þeim brennur.

Þó heyri ég oft fullyrðingar um að kennarar hafi lítinn áhuga á að koma til móts við þarfir nemenda.

Það er markmið okkar kennara að veita nemendum einstaklingsbundið nám. Það þýðir ekki að allir fái einkakennslu en það þýðir að aðlaga þarf námsefni að mismunandi þörfum nemenda. Það er ögrandi og skemmtilegt verkefni en tímafrekt. Í skóla án aðgreiningar eru nemendur með sérþarfir. Mikill tími fer í að sinna þessum nemendum. Við kennarar þurfum að ígrunda reglulega hvað gengur vel og hvað ekki hjá nemanda með sérþarfir, vera lausnamiðaðir og útsjónarsamir. Láta okkur detta eitthvað nýtt og gagnlegt í hug, funda með sérfræðingum og foreldrum, fylla út skýrslur, útbúa, aðlaga eða finna verkefni við hæfi. Skapa viðunandi námsaðstæður og samræma vinnu og viðbrögð allra sem að nemandanum koma. Svo eru það allir hinir sem ekki teljast með sérþarfir, þeim má ekki gleyma.

Samt heyri ég sagt að kennarar kenni of lítið og hafi of mikinn tíma til undirbúnings.

Í dag er föstudagur, ég og nemendur erum að ræða dagatalið. Nú er helgarfrí fram undan segi ég og sýni nemendum frídagana á dagatalinu. Allir fagna nema einn, hann brestur í grát. Ég vil ekki fara í frí, ég vil vera hér í skólanum segir hann grátandi. Mér bregður illilega. Ég kem hinum í vinnu svo ég geti sinnt nemanda mínum einslega. Nú verð ég strax að reyna að fá mynd af heimilisaðstæðum – aftur. Ef til vill þarf að senda tilkynningu til yfirvalda – aftur. Ég reyni að kalla saman alla þá starfsmenn sem að nemandanum koma eins fljótt og auðið er eftir kennslu en það er ekki hlaupið að því. Kennarar eru ýmist í teymisvinnu, á fundi eða að sinna öðrum bráðum tilvikum hjá sínum umsjónarnemendum. Aðrir starfsmenn hafa flestir lokið störfum í dag eða hafið störf í skólavistun. Af hverju vill barnið ekki fara heim? Hvað ætli sé í gangi á heimilinu? Ég fer í helgarfrí en hugur minn er hjá nemanda mínum, mér líður ekki vel. Er ég að bregðast?

Ég heyri svo oft fullyrt að skólinn og kennarar bregðist nemendum.

Ég er í skemmtilegasta starfi í heimi. Börn eru lífsglöð og krefjandi. Þau eiga rétt á því að finna að við sem störfum með þeim getum veitt þeim þá athygli og gefið þeim þann tíma sem þau þurfa. Þau eiga rétt á því að við leggjum okkur fram um að kynnast þeim vel, þekkja aðstæður þeirra og áhugamál og séum vakandi yfir velferð þeirra. Við verðum og eigum að bregðast rétt og fljótt við ef okkur grunar að eitthvað bjáti á í lífi þeirra.

Þó heyri ég að það þurfi að stækka umsjónarhópa.

Ert þú í starfi þar sem þeir sem þú ert að vinna með faðma þig innilega? Ert þú í starfi þar sem þeir sem þú ert að vinna með segja að þú sért frábær? Ert þú í starfi þar sem þeir sem þú ert að vinna með segja þér að þeir elski þig meira en ömmu sína?

Ég er í þannig starfi – það eru þeir sem ég vinn með, nemendur mínir og frábært samstarfsfólk, sem halda mér í kennslu í grunnskóla þrátt fyrir starfsaðstæður sem löngu eru komnar að þolmörkum. Viðurkenningu og þakklæti fyrir mín störf fæ ég frá nemendum mínum. Skammir fæ ég í þjóðfélaginu, ekki síst í fjölmiðlum. Þeir sem tala starf mitt niður með sleggjudómum og alhæfingum þekkja ekki til þess sem fram fer í grunnskólum landsins.

Veist þú hver verkefni grunnskólans eru, hvernig starfsaðstæður eru eða hvaða starf fer þar fram?




Skoðun

Sjá meira


×